Opna markaðstorg í gamla Ramma á Fitjum í dag
Hjónin Karen Hilmarsdóttir og Einar Árnason opna í dag Skansinn, markaðstorg með notaða og nýja vöru í gamla Rammahúsinu á Fitjum í Njarðvík.
Skansinn er nokkurs konar kolaport þar sem fólk getur leigt sér pláss undir sölubása. Markaðstorgið opnar í dag kl. 14 og verður opið til kl. 19 en um helgina verður opið kl. 12-18 bæði laugardag og sunnudag.
Karen mun hafa umsjón með Skansinum en þar verður, auk markaðstorgsins, hægt að setjast niður og fá sér kaffiveitingar. Þeir sem vilja bóka sölubás geta sent tölvuskeyti á [email protected] en ennþá er laust pláss í húsinu fyrir sölubása.
Um helgina æltar Tobba listakona að vera með verk sín á sýningu á markaðnum, auk þess sem hún ætlar að kenna grunnhandtökin í málaralistinni.
Þau Karen og Einar hafa gert afnotasamning til eins árs við Reykjanesbæ um húsnæðið fyrir markaðstorgið. Síðustu dagar hafa farið í að standsetja húsið og þau hafa fengið góð viðbrögð frá fólki við því að hér sé að opnar nokkurs konar kolaport.
Myndir: Skansinn, markaður með notað og nýtt verður í gamla Rammahúsinu á Fitjum.