Omnis opnar við Hafnargötu og Síminn fluttur heim
– „Fólki þykir gott að geta sótt þjónustuna í heimabyggð“
„Omnis er komið á áberandi stað hér við Hafnargötuna og mun hentugra húsnæði en það sem við vorum í áður við Tjarnargötu. Þetta húsnæði er bæði opið og þægilegt. Húsið er snyrtilegt og stendur við eitt helsta kennileiti bæjarins, símamastrið við Hafnargötu. Það er gaman að vera fluttur hingað og vonandi lífgum við upp á Hafnargötuna,“ segir Björn Ingi Pálsson, Rekstrarstjóri Omnis í Reykjanesbæ. Björn Ingi er ekki að byrja í faginu en hann hefur verið í verslunarrekstri með tölvubúnað í Reykjanesbæ frá árinu 1994.
Omnis er latína og þýðir „allt“. „Við vorum að leita að nafni sem væri samnefnari fyrir það sem við erum að gera og þar með kom Omnis upp úr hattinum. Omnis er upplýsingatæknifyrirtæki og slagorðið okkar er „upplýsingatækni í heimabyggð“. Við erum með verslanir á þremur stöðum á landinu: í Reykjanesbæ, Akranesi og Borgarnesi og svo er rekin fyrirtækjaþjónusta í Reykjavík. Omnis er einnig umboðsaðili fyrir Símann og þeirra þjónustu á þessum þremur stöðum. Þá er Omnis umboðsaðili fyrir TM (Tryggingamiðstöðina) á Akranesi og Borgarnesi“.
Omnis selur úrval tækja og tóla fyrir, hvort sem það eru símar, tölvur eða spjaldtölvur. Einnig allar rekstrarvörur fyrir tölvur og fylgihluti. Björn Ingi og hans fólk hjá Omnis í Reykjanesbæ er þessa dagana að koma sér fyrir í nýju versluninni við Hafnargötu. Þar er verið að taka vörur upp úr kössum alla daga og segir Björn Ingi að búðin nái varla að taka á sig endanlega mynd fyrr en um áramót. Þá verður sérstök deild með sjónvarpstæki komin upp, á sama tíma lækka vörugjöld á sjónvarpstæki um áramót.
Þjónusta í upplýsingatækni frá A-Ö
„Þetta húsnæði er skemmtilegt og ég er ánægður að vera kominn hingað. Þetta hús á sér mikla sögu bæði sem pósthús og símstöð. Hér hefur engin starfsemi verið síðan JÁ flutti héðan með símaver sitt,“ segir Björn Ingi.
Hjá Omnis í Reykjanesbæ starfa fimm manns og gaman að geta þess að þrír af þeim störfuðu í þessu húsi hjá Símanum, en alls eru 40 starfsmenn hjá fyrirtækinu öllu. Auk þess að vera í upplýsingatækniþjónustu frá A-Ö, þá sér Omnis um vettvangsþjónustu og viðgerðir fyrir Símann á Suðurnesjum. Þó nokkuð er að gera í að þjónusta búnað Símans eins og routera og myndlykla fyrir Sjónvarp Símans.
Snjallir símar og öll helstu merkin í tölvum
Fjölmargir fá sér nýjan síma fyrir jólin og hjá Omnis er úrval snjallra síma frá Símanum. Þar er iPhone alltaf vinsæll en einnig Samsung og svo einnig Lumia með Windows, sem hefur verið að sækja í sig veðrið.
Í tölvum þá er mikil sala í bæði fartölvum og spjaldtölvum. Þeir eru þó ennþá til sem vilja borðtölvur en þá eru menn að horfa til þess að geta verið með stærri skjá. Omnis býður upp á öll helstu merkin í tölvubúnaði frá Advania, Opnum kerfum, Nýherja og Epli. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að vera með sýnishorn af öllum búnaði á staðnum. Hins vegar getur fólk kynnt sér allan búnaðinn í verslun Omnis í Reykjanesbæ. Tölvurnar eru svo pantaðar og afgreiddar samdægurs eða strax næsta dag.
Dugleg að versla heima
Björn Ingi segir Suðurnesjamenn duglega að versla heima og að grasrótin sé að virka. Þá er Omnis með þjónustusamninga við flest sveitarfélögin á Suðurnesjum um þjónustu við tölvukerfi og rekur einnig verkstæði í Reykjanesbæ. „Fólki þykir gott að geta sótt þjónustuna í heimabyggð“.
Það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að koma í sölu. Nú eru það nýjustu útgáfurnar af, iPad, nýjustu símarnir og svo má lengi telja. „Það eru alltaf að koma stærri og öflugri tæki fyrir sama verð og áður“.