Omnis og Ríkiskaup semja um tölvubúnað
Í dag undirrituðu Eggert Herbertsson framkvæmdastjóri Omnis ehf. og Halldór Ó. Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa rammasamning um tölvubúnað. Samningurinn er gerður í kjölfar útboðs vegna notendabúnaðar, miðlægs búnaðar, netbúnaðar, notendahugbúnaðar og kerfishugbúnaðar. Stóðst Omnis kröfur Ríkiskaupa í öllum þessum flokkum og er eitt af fimm fyrirtækjum sem geta boðið búnað í öllum þessum flokkum.
Eggert Herbertsson segir samninginn ánægjulega viðurkenningu sem styrki stoðir fyrirtækisins til lengri tíma litið enda hið opinbera stærsti kaupandi á þessu sviði á landinu og um leið einn sá kröfuharðasti.
„Við vonum að stofnanir og fyrirtæki ríkisins nýti sér það sem við höfum að bjóða í sölu og þjónustu á tölvubúnaði, enda getur fyrirtækið boðið eitt mesta úrvar tölvubúnaðar á landinu. Einnig er það gæðastimpill á starfsemi fyrirtæksins að gera svona víðtækan samning við allar ríkisstofnanir og fjöldan allan af sveitarfélögum“.
Omnis er aðili að tveimur öðrum rammasamningum, í rekstrarvörum fyrir prentara og ljósritunarvélar og almennri tækniþjónustu.
Fyrirtækið hefur undanfarin misseri verið að hasla sér völl á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land til viðbótar við starfsemi félagsins á Vesturlandi og á Reykjanesi. Starfsmenn félagsins eru í dag um 40 .