Omnis, Netvistun og Premis sameinast
Um áramótin sameinuðust upplýsingatæknifyrirtækin Premis, Omnis og Netvistun undir nafni Premis. Á síðasta ári hafði Omnis selt verslunarrekstur sinn og munu tvær af þeim verslunum líklega halda Omnis nafninu áfram.
Starfsmenn Omnis og Netvistunar eru nú fluttir í húsnæði Premis í Hádegismóum 4. Premis er einnig með tæknimenn starfandi á Suðurnesum og á Akranesi sem sinna viðskiptavinum á þessum svæðum. Premis mun byggja á tveimur megin stoðum sem verða tölvuþjónusta, kerfisrekstur og hýsing annars vegar og hugbúnaðarlausnir og vefsíðugerð hinsvegar.
Kristinn Elvar Arnarsson, framkvæmdastjóri Premis, leiðir sameinað félag. Hann telur mikil tækifæri felast í sameiningunni. Í tilkynningu segir að Omnis hafi mikla reynslu í nýtingu skýjalausna en að Premis sé aftur á móti með öfluga hýsingarþjónustu. „Við teljum að lausnir framtíðar felist í að tvinna saman hagkvæmni skýjalausna við hýsingu þeirra kerfa sem þurfa nálægðina.“
Kristinn nefnir ennfremur að með sameiningu Netvistunar við Premis verði til annar stærsti vefhýsingaraðilinn á landinu, talið í fjölda hýstra léna.
„Premis getur nú boðið þessum stóra hópi viðskiptavina aukna þjónustu í rekstri og nýsmíði heimasíðna. Hugbúnaðarsvið Premis hefur svo um langt árabil þróað hugbúnaðarlausnir fyrir íslenskan markað og má þar helst nefna samfélagsmiðað innra net fyrir fyrirtæki og leikskólakerfi sem á annað hundrað leikskólar eru að nota. Þar eru einnig mikil tækifæri til sóknar á erlenda markaði.“