Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Olsen Olsen á nýjum stað
Gunnar og Bergljót á nýja staðnum. VF-myndir/pket.
Fimmtudagur 30. október 2014 kl. 16:54

Olsen Olsen á nýjum stað

„Það gengur bara ágætlega hjá okkur en auðvitað hafa verið sviptingar eins og gengur. Við erum ánægð með að vera komin á þennan stað, aðstaða starfsfólks er miklu betri og þá eru helmingi fleiri sæti en á gamla staðnum,“ sagði Gunnar Friðriksson sem á og rekur veitingastaðinn Olsen Olsen með Bergljótu Grímsdóttur, konu sinni.

Gunnar er ekki ókunnur á þessum gamla verslunarstað við Hafnargötu 62 en þar hefur verið starfrækt verslun eða þjónusta óslitið í tæpa sjö áratugi. Ekkert annað hús á lengri sögu í verslun og þjónustu í Reykjanesbæ. Eftir áratuga rekstur Kaupfélags Suðurnesja í plássinu opnaði Axel Jónsson veitingastaðinn Langbest árið 1986. Ári síðar keyptu Gunnar og Bergljót veitingastaðinn og ráku hann í áratug. Ingólfur Karlsson og Helena Guðjónsdóttir tóku við keflinu á Langbest árið 1987 þar til þau lokuðu fyrir stuttu og fluttu alla starfsemi Langbest á Ásbrú. Gunnar starfaði á Langbest og þar á undan á veitingastaðnum Glóðinni í sama húsi. Síðustu árin hafa þau hjónin rekið Olsen Olsen við Hafnargötu 17. Gunnar segir að þegar honum hafi staðið til boða að færa staðinn hafi hann strax fundist það spennandi hugmynd og svo ákveðið að láta verða af því. Hann var sáttur við gang mála þegar VF leit við hjá honum í opnunarteiti á nýja staðnum.

Gunnar er sáttur með gang mála í rekstrinum og segir að sumrin séu sífellt að verða stærri með fleiri ferðamönnum. Hann nefnir líka athyglisverða breytingu sem varð þegar Varnarliðið fór með manni og mús frá Keflavíkurflugvelli en Kanarnir voru góðir viðskiptavinir hjá honum. Það hlýtur að hafa verið áfall fyrir veitingastaðinn? „Ótrúlegt en satt þá varð breytingin þannig að Íslendingar fylltu í skarð Varnarliðsmanna. Það má ekki gleyma því að fjöldi heimamanna stundaði veitingastaði á Vellinum. Þeir fluttu sig bara hingað niður eftir,“ segir Gunnar þegar hann rifjar þetta upp.

Olsen Olsen hefur stundum verið líkt við ameríska staðinn Route 66 sem margir þekkja. Gunnar og hans starfsfólk matreiðir vinsæla báta en auk þess hamborgara, samlokur og fleira með öllu tilheyrandi. Hann lofar áfram ljúffengum skyndibita á nýjum stað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vinir og ættingjar samfögnuðu með Gunnari og Bergljótu á nýja staðnum.