Olís leggur góðum málefnum lið með verkefninu Gefum & gleðjum
Olíuverzlun Íslands hefur enn á ný ákveðið að leggja góðum málefnum lið næstu vikurnar með verkefninu Gefum & gleðjum. Næstu þrjá föstudaga munu 5 krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB renna til Stígamóta, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. Á milli jóla- og nýárs mun síðan Slysavarnarfélagið Landsbjörg njóta góðs af verkefninu með sama hætti og í fyrra.
„Við hjá Olís teljum það okkar samfélagslegu skyldu að leggja góðum málefnum lið. Olís hefur undanfarin ár styrkt með myndarlegum hætti fjölmörg verkefni sem áhrif hafa haft á samfélagið okkar hvort heldur sem um ræðir félagasamtök eða íþróttafélög og því viljum við halda áfram. Með því að dæla eldsneyti næstu föstudaga á Olís eða ÓB stöðvum geta landsmenn allir lagt sitt af mörkum til að styðja við þessi félög. Við viljum með þessu verkefni sýna að fyrirtæki geta lagt sitt af mörkum og hvetjum við önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama,” segir Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri smásölusviðs hjá Olís.
Þetta er annað árið í röð sem Olís leggur góðum málefnum lið með verkefninu Gefum & gleðjum en á síðasta ári nutu Styrktarfélag barna með einhverfu, Mæðrastyrksnefnd, Neistinn, Styrktarfélag hjartveikra barna, Geðhjálp og Slysavarnarfélagið Landsbjörg góðs af verkefninu en þá söfnuðust yfir 10 milljónir króna fyrir félögin.
Á myndinni með fréttinni eru þau Sigurður K. Pálsson, markaðsstjóri Olís, Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB, Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM samtakanna, Karen Linda Eiríksdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, Gunnar Stefánsson, skrifstofustjóri Landsbjargar, og Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri smásölusviðs hjá Olís.