Ókeypis gisting á Hótel Keflavík
Níunda árið í röð býður Hótel Keflavík upp á fría gistingu á hótelinu í desember og styður þannig við verslun og þjónustu í Reykjanesbæ. Hótel Keflavík ætlar að styðja við verslun í Reykjanesbæ með því að bjóða upp á allt að 20 herbergi á dag sem gestir borga fyrir með því að framvísa kvittunum úr verslunum í Reykjanesbæ. Gegn kvittun upp á 16.800 kr. fæst frí gisting í 2ja manna herbergi en sé framvísað kvittun upp á lágmark 20.800 krónur fæst gisting í fjölskylduherbergi. Að auki fylgir frír morgunmatur með gistingunni, en Hótel Keflavík er rómað fyrir sérlega glæsilegan morgunmat.
Steinþór sagði að oft væri þörf en nú væri nauðsyn að Suðurnesjamenn stæðu saman og versluðu heima og fengju vini og ættingja til að koma til Suðurnesja og gera jólainnkaupin. Tilboðið á Hótel Keflavík stendur frá 1. til 20. desember og allt að 20 herbergi eru í boði á sólarhring.
Rétt er að árétta að gistingin er hugsuð fyrir fólk sem býr utan Suðurnesja en kemur til Reykjanesbæjar til að gera jólainnkaup og heimsækja vini og ættingja.