Viðskipti

Ofnæmi varð kveikjan að nýsköpun
Eydís kynntist þaranum þegar hún vann við kortlagningu á lífríki í fjörum á Reykjanesskaga.
Laugardagur 2. júlí 2016 kl. 06:00

Ofnæmi varð kveikjan að nýsköpun

- Þróar krem úr þara í samstarfi við móður sína og frænda

„Ég komst að því fyrir 12 árum að sonur minn er með ofnæmi fyrir parabenum, rotvarnarefnum í kremum. Eftir það fór ég að lesa utan snyrtivörur og sá að það voru paraben nánast í þeim öllum. Ég komst líka að því að flestar húðvörur innihalda lítið magn virkra efna, en þess í stað mikið magn af óvirkum fylliefnum ásamt ýmsum öðrum efnum sem geta verið skaðleg bæði heilsu okkar og umhverfinu,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir, umhverfisfræðingur og frumkvöðull hjá nýsköpunarfyrirtækinu Zeto. Í mars síðastliðnum tók Eydís þátt í Frumkvöðlakeppninni Gullegginu með hugmynd sína um að framleiða lífvirkar húð-, hár- og sápuvörur úr kaldpressuðu þaraþykkni og lenti í þriðja sæti. Síðan þá hefur verkefnið hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði, Átaki til atvinnusköpunnar og Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka og er markmiðið að setja fyrstu vörurnar á markað næsta sumar.

Kynntist þaranum í Sandgerði
Eydís ólst upp á Norðurlandi og Austfjörðum en flutti til Reykjanesbæjar árið 2001 eftir að hún kynntist eiginmanni sínum, Guðmundi Stefáni Gunnarssyni, sem sennilega er þekktastur sem júdófrumkvöðull hjá UMFN. Hún lauk námi í landafræði í Danmörku og flutti aftur til Íslands árið 2008 og hóf þá nám í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands. Eftir útskrift fór hún að vinna hjá Náttúrustofu Suðvesturlands í Sandgerði við að kortleggja lífríki í fjörum Reykjanesskaga. Þar kynntist hún fyrst þara og eiginleikum hans. „Þegar var smástreymt var ekki hægt að fara niður í fjöru að kortleggja og þá var ég að kanna hvað hægt væri að gera við þær þörungategundir sem við vorum að kortleggja. Segja má að ég hafi orðið ástfangin af þaranum enda er þetta ein harðgerðasta lífvera jarðarinnar og einstaklega næringarrík. Ég komst að því að þari er mikils metinn í húðvöruiðnaðinum því að í honum er að finna mikið magn vítamína, steinefna, amínósýra, andoxunarefna og ýmissa annara lífvirkra efna sem er vísindalega sannað að eru græðandi, mýkjandi, bæta efnaskipti, hjálpa til við uppbyggingu kollagens, hægja á öldrun húðarinnar, koma í veg fyrir myndun öra, verja húðina gegn ljósöldrun, eru bólgueyðandi, hafa vírus-, bakteríu- og sveppahamlandi eiginleika og hægja á vexti krabbameinsfrumna. Þarinn er einstakt efni og hjálpar til við að byggja upp heilbrigt vistkerfi húðarinnar,“ segir hún og brosir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Núna er verið að þróa umbúðirnar en allur texti á þeim verður á ensku enda er stefnt að útflutningi á vörunum sem fyrst.

Aukin eftirspurn með þaranum
Guðný Fjóla Sigurðardóttir, móðir Eydísar, hefur alltaf verið mikið náttúrubarn að sögn Eydísar. „Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á að nýta það sem náttúran gefur, eins og ber, sveppi og hinar ýmsu lækningajurtir. Svo þegar parabenofnæmi sonar míns uppgötvaðist byrjaði hún að búa til húð- og sápuvörur fyrir okkur án skaðlegra efna, úr úrvals náttúrulegum efnum og jurtum sem hún tíndi sjálf.“ Til að byrja með var þó enginn þari í kremunum. Það var svo fyrir mikla tilviljun í spjalli á milli ættingja í jólaboði að þarinn kom til sögunnar. „Bróðir mömmu, Steindór Runiberg Haraldsson, var að segja frá þörungaþykkni sem hann hafði verið að þróa sem bragðefni. Hann er kokkur og hefur lengi unnið að ýmis konar nýsköpun og líftækni, meðal annars að þróa bragðefni.“ Þegar Eydís heyrði af þaraþykkninu í jólaboðinu varð hún strax áhugasöm og svo skemmtilega vildi til að Steindór var með fullan brúsa af því úti í bíl. „Við mamma fengum brúsann og bárum þaraþykknið á okkur næstu daga og fundum mikinn mun á húðinni. Við prófuðum að taka allt vatn úr kremuppskriftunum og settum þaraþykknið í staðinn og útkoman varð alveg einstakt krem. Allt í einu fórum við að finna fyrir mikilli eftirspurn eftir bæði kremunum og sápunum og þá sérstaklega frá fólki með viðkvæma húð eða húðvandamál eins og til dæmis exem. Með tímanum hafa svo nýjar vörur verið þróaðar eftir þörfum. Við leggjum mikla áherslu á að velja vandlega öll innihaldsefni varanna. Þannig eru engin óvirk fylliefni í þeim og að sjálfsögðu engin paraben.“

Fótakremið var júgursmyrsl
Eydís nefnir sem dæmi einn ættingja með viðkvæman hársvörð sem fékk mikinn kláða vegna súlfata sem er að finna í flestum sjampóum. „Súlföt eru ódýr freyðiefni sem geta verið mjög ertandi fyrir húðina og er að finna í flestum sjampóum og ódýrum sápum. Nú erum við búin að vera að þróa súlfatlaust sjampó og hárnæringu úr þaraþykkninu.“ Eydís nefnir einnig kunningjakonu þeirra sem var með mikið kuldaexem á höndum og keypti sápu á bás Júdódeildar UMFN á Ljósanótt eitt árið. „Eftir að hafa notað sápuna varð húðin alveg heil. Þessi kona hefur notað sápuna núna í rúm fjögur ár og nær með henni að halda niðri exeminu.“ Stefnan er einnig að setja á markað fótakrem. Í upphafi var fótakremið þó þróað sem júgursmyrsl því að vinkona mömmu Eydísar sem framleiðir lífræna mjólk vildi ekki nota venjulegt júgursmyrsl á kýrnar sínar. Móðir Eydísar setti saman krem, meðal annars úr þara og minkaolíu og úr varð hið besta smyrsl fyrir kýrnar en einnig einstaklega gott fótakrem fyrir fólk. Eydís segir þau hafa ótalmörg svona dæmi og hafi virkni þaraþykknisins og varanna sannarlega sannað sig á undanförnum árum. „Það var aldrei ætlunin að fara að framleiða og selja húðvörur, en allt í einu höfðum við í höndunum þetta einstaka hráefni og vörur sem hafa virkilega verið að gera fólki gott og því má segja að við getum ekki annað en sett þær á markað. Eldhúsið hennar mömmu annar ekki lengur eftirspurn.“

Nú í sumar fer þaraþykknið í efnagreiningu hjá Matís og er Eydís full eftirvæntingar að sjá útkomuna. Kremin verða svo blönduð og pökkuð hjá fyrirtækinu Pharmarctica á Grenivík og sápurnar hjá Sælusápum í Kelduhverfi. Eydís segir skemmtilegt að verkefnið teygji sig svo víða um landið enda þurfi ekki allt að gerast á Suðvesturhorninu. „Það er mjög gaman að taka þátt í líftækni á Íslandi í dag. Það eru svo mörg fyrirtæki að framleiða virkilega vandaðar og hreinar vörur. Þó fyrirtækin séu mörg hver í samkeppni, þá vinna þau líka saman að því að skapa gott orðspor fyrir Ísland og íslenskar vöru og styrkja þannig hvert annað.“

Ný tækni
Þarinn sem notaður er í þykknið er lífrænt vottaður og er unninn hjá Þörungavinnslunni á Reykhólum. Að sögn Eydísar er vinnsluaðferðin við að ná þaraþykkninu úr þaranum einstök og eftir því sem hún best veit ekki notuð annars staðar í heiminum. „Hefðbundið þaraekstrakt er unnið með hjálp ensíma eða sýru og basa en þá tapast ýmis lífvirk efni í vinnslunni. Steindór frændi er búinn að þróa aðferð sem byggir á nýrri tækni í vélbúnaði og vonumst við til þess að ná meira af lífvirkum efnum úr þaranum, auk þess sem aðferðin er afar umhverfisvæn.“

Stefna á útflutning
Núna er verið að vinna að hönnun á umbúðum og verður allur texti á þeim á ensku þar sem stefnan sé sett á útflutning sem fyrst. Eydís og félagar eru þegar í samstarfi við aðila í Japan, Bretlandi og Þýskalandi sem bíða spenntir eftir að vörurnar verði tilbúnar til markaðsetningar. Eydís segir fólk alltaf að verða meðvitaðra um skaðsemi ýmissa kemískra efna og að mikill vöxtur sé á sölu náttúrulegra húðvara. Næstu skref eru svo að undirbúa markaðsetningu varanna og vonast Eydís til þess að vörur Zeto verði komnar á markað næsta sumar. „Ég hef mikla trú á þaraþykkninu og þeim vörum sem við erum búin að þróa. Það sem ég þarf að gera núna er að vanda vel til verka og þá mun Zeto ganga vel.“