Nýtt sementssíló í Helguvík
Í síðustu viku var formlega tekið í notkun nýtt sementssíló hjá fyrirtækinu Aalborg Portland Ísland hf. í Helguvík og eru síló fyrirtækisins orðin tvö. Nýja sílóið er 24 metra hátt og tekur um 5000 tonn af sementi, en bæði taka sílóin um 10 þúsund tonn. Fyrirtækið Aalborg Portland var sett á laggirnar á Íslandi í janúar árið 2000 og segir Bjarni Óskar Halldórsson framkvæmdastjóri að á síðasta ári hafi fyrirtækið selt um 30 þúsund tonn af sementi. Hann segir að með nýja sílóinu sé verið að auka hagkvæmni og veita betri þjónustu til viðskiptavina: „Með nýja sílóinu erum við að mæta aukinni eftirspurn og tryggja afhendingu til okkar viðskiptavina, auk þess sem við getum tekið meira magn og aukið þannig hagkvæmni sem skilar sér til viðskiptavina.“