Nýtt fraktflughlað tekið í notkun
Í dag tók Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, formlega í notkun nýtt 19 þúsund fermetra fragtflughlað á Keflavíkurflugvelli. Í fréttatilkynningu frá Flugmálastjórn segir að á síðustu arum hafi mikil aukning verið í fraktflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli: „Vöruflutningar voru samtals tæp 42 þúsund tonn á síðasta ári, þar af var útflutningur um 25 þúsund tonn og hefur rúmlega tvöfaldast á sjö árum.“
Einnig kemur fram í tilkynningunni að búist sé við áframhaldandi aukningu í fraktflugi frá Keflavíkurflugvelli á næstu árum, þar sem fyrirtækin IGS, dótturfélag Flugleiða og Vallarvinir reist sérhæfðar fraktmiðstöðvar í þeim tilgangi að bæta þjónustu við útflytjendur. Í fréttatilkynningunni kemur fram að fragtflughlaðið muni bæta vörumeðhöndlun með betri tengingu við fragtmiðstöðvarnar og verður hægt að þjónusta allt að fjórar vöruflutningavélar á flughlaðinu samtímis: „Hönnun þessa sérhæfða fragtflughlaðs hófst í fyrra og eru hönnuðir þess Almenna verkfræðistofan og Rafhönnun. Framkvæmdin var boðin út á vegum Ríkiskaupa nú á vordögum og buðu alls fjórir aðilar í verkið, en lægstbjóðandi voru Íslenskir aðalverktakar. Framkvæmdir hófust 9. maí sl. og lauk þeim þann 18. september sl. Yfirumsjón verksins var í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins en eftirlitsaðili var Verkfræðistofa Suðurnesja. Heildarkostnaður við verkið nam 195 milljónum króna,“ segir í tilkynningunni.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri aðstoðar Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra við að klippa á borðann á nýja fraktflughlaðinu sem formlega var tekið í notkun í dag.