Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Nýtt bílaapótek við Aðaltorg fær góðar móttökur
Húsnæði bílaapóteks Lyfjavals Apóteks Suðurnesja við Aðaltorg í Reykjanesbæ. VF-myndir/pket.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 24. febrúar 2023 kl. 06:30

Nýtt bílaapótek við Aðaltorg fær góðar móttökur

Lyfjaval Apótek Suðurnesja hefur flutt starfsemi sína frá Hringbraut í Keflavík í nýtt og glæsilegt húsnæði við Aðaltorg í Keflavík, efst á Aðalgötu við Courtyard by Marriott hótelið. Þar hefur verið opnað svokallað bílaapótek sem er opið alla daga vikunnar frá níu á morgnana til níu á kvöldin.

Tanja Veselinovic lyfjafræðingur er lyfsalinn hjá Lyfjavali Apóteki Suðurnesja í Reykjanesbæ og hefur verið það í um ellefu ár, frá því Þorvaldur Árnason, sem þá átti Apótek Suðurnesja, fékk Tönju til Suðurnesja þegar Apótek Suðurnesja var enduropnað. Hún hafi fengið góða niðurstöðu úr meistaraverkefni sínu í lyfjafræði og ætlaði að fara í doktorsnám þegar Þorvaldur kom að máli við hana og vildi að hún myndi sjá um apótekið í Reykjanesbæ. Það varð úr og Tanja hefur skotið rótum í Reykjanesbæ með fjölskyldu sinni. Tanja ólst upp á Akranesi og gekk þar í barnaskóla og framhaldsskóla en upprunalega kom hún til Íslands sem innflytjandi þegar stríð braust út í hennar heimalandi, Króatíu. Hún fór svo í háskólanám í Reykjavík og þaðan drógu örlögin hana til Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er skemmtilegt að vera komin hingað á Aðaltorg. Þetta er bara allt annað og sérhannað húsnæði fyrir þessa starfsemi sem bílaapótek. Vinnuaðstaða er til fyrirmyndar og húsnæðið bjart og gott,“ segir Tanja í samtali við Víkurfréttir.

Hjá apótekinu eru í dag sextán starfsmenn og þar af eru sex lyfjafræðingar. Ekki veitir af, því apótekið er í dag opið í tólf tíma á sólarhring, alla daga vikunnar. Opið er inn í búðina frá níu að morgni og til klukkan sex síðdegis en lúgurnar eru opnar áfram til klukkan níu á kvöldin.

Aðspurð hvernig reynslan sé búin að vera fyrstu dagana, sagði Tanja að hún væri æðisleg. Allir gömlu viðskiptavinirnir hafi fylgt þeim á nýjan stað og þá hafi starfsfólkið einnig verið að sjá mikið af nýjum andlitum koma í lúguna eða inn í búðina.

„Eldri viðskiptavinirnir hafa verið að koma inn í búðina til að heilsa upp á okkur á nýjum stað og svo eru þeir sem koma bara í lúguna og finnst það æðislegt að fá afgreiðslu á öllu beint í bílinn. Ég er líka svolítið hissa á hvað fólki finnst þetta spennandi þegar það kemur í lúguna. Það eru allir að prófa sig áfram. Þetta er líka mikil breyting fyrir okkur með lengri opnunartíma. Við erum líka að sjá fólk koma hingað til okkar úr Grindavík og Vogum, viðskiptavinir sem hafa ekki verið að koma á Hringbrautina.“

Tanja segir að þörfin fyrir lengri opnunartíma hafi greinilega verið til staðar og það hafi verið mjög mikið að gera frá því það var opnað síðasta föstudag.

„Þessi staðsetning á apótekinu er á aðaltorgi bæjarins til framtíðar. Hérna mun opna annar verslunarkjarni í framtíðinni, heilsugæslan er að koma hérna í næsta hús, hér er nálægð við flugstöðina og Suðurnesjabæ. Það er mikil umferð um þetta svæði,“ segir Tanja.

Bílaapótek hefur mikla kosti fyrir viðskiptavini, sem þurfa ekki að fara út úr bílnum til að fá afgreiðslu á lyfseðilsskyldum lyfjum eða aðra vöru. Fólk sem á erfitt með gang tekur þessari þjónustu fagnandi. Lúgurnar á apótekinu eru fjórar og í góðu skjóli fyrir veðri og vindum. Það sé því þægilegt að geta bara setið í heitum bílnum á meðan beðið er eftir því að lyfin séu afgreidd. Þá getur fólk farið inn á lyfjaval.is og gengið frá pöntun á lyfjaafgreiðslu þar og komið í lúguna og sótt. Send er staðfesting til fólk þegar lyfin eru tilbúin til afgreiðslu.

„Þá sagði viðskiptavinur við okkur að næðið í lúgunni væri meira en inni við afgreiðsluborðið. Einnig er þetta þægileg leið fyrir fólk með börn, að þurfa ekki að taka þau úr bílstólnum og koma inn,“ segir Tanja Veselinovic lyfjafræðingur í samtali við Víkurfréttir.

Hjá Lyfjavali Apóteki Suðurnesja starfa samtals sextán manns á mörgum vöktum. Ljósmyndari Víkurfrétta náði að smella myndum af nokkrum starfsmönnum nú í vikunni.

Tanja Veselinovic lyfjafræðingur hjá Lyfjavali Apóteki Suðurnesja í einni bílalúgunni. VF/Hilmar Bragi.