Nýr Toyota Auris frumsýndur á 15 ára afmæli
Toyota í Reykjanesbæ verður með sýningu á morgun á nýju Toyota Auris bifreiðinni. Um er að ræða nýjustu útgáfu þessarar vinsælu bifreiðar og verður einnig fáanleg Auris Hybrid útgáfa. Sýning verður á þessum glæsilegu bifreiðum frá kl. 12-16 á morgun og eru allir hvattir til að mæta. Ævar Ingólfsson hjá Toyota Reykjanesbæ kveðst spenntur fyrir því að hefja sölu á þessari nýju bifreið.
„Við erum mjög spenntir - þetta er mjög flottur bíll. Við höfum fengið margar fyrirspurnir um þennan bíl og margir sem vilja prufukeyra bílinn,“ segir Ævar. „Þessir bílar eru sífellt að lækka í verði sökum þess að þeir menga minna og færast niður um tollaflokka. Það hjálpar okkar viðskiptavinum sem er jákvætt. Það er mikið að gerast hjá okkur í ár því við fáum nýjan Verso í næsta mánuði og svo kemur nýr Rav4 í mars. Það eru spennandi tímar framundan.“
Gekk vel á síðasta ári
Bílasala gekk vel hjá Ævari og félögum hans hjá Toyota Reykjanesbæ á síðasta ári. Alls var seld 141 ný Toyota bifreið á árinu 2012 og um þúsund notaðir bílar. „Síðasta ár var gott og mikil aukning frá árinu 2011. Við eigum von á góðu ári og finnum að markaðurinn er að taka við sér. Við gerum ráð fyrir 10% aukningu í sölu á árinu 2013. Markaðurinn er auðvitað langt frá því að vera í líkingu við það sem var hér á árunum fyrir hrun en þetta er allt á réttri leið,“ segir Ævar.
Ævar hefur starfað við sölu á Toyota bifreiðum frá árinu 1986 er hann hóf störf hjá Bílasölu Brynleifs. Árið 1996 keypti hann reksturinn og tveimur árum síðar opnaði hann Toyotasalinn að Fitjum. „Það töldu margir að ég væri bilaður þegar ég ákvað að byggja nýjan sal í Fitjum. Ég opnaði þar 5. janúar árið 1998 og við fögnum því 15 ára starfsafmæli hér á morgun. Það hefur heldur betur svínvirkað að flytja hingað.“
Bílflotinn að verða of gamall
Ævar hefur starfað lengi í bransanum og það hefur mikið breyst frá því að hann hóf að selja sínar fyrstu bifreiðar. „Helsta breytingin á sjálfum bílunum er kannski sú að þeir eru miklu öruggari í dag en þeir voru fyrir 25 árum. Íslendingar urðu líka duglegri að skipta um bíla eftir að lánastofnanir fóru að veita fjármögnun en fram að því þurftu menn nánast að staðgreiða bílinn til að geta keypt. Það eitt og sér breytti miklu,“ segir Ævar sem telur mikilvægt að fá niðurstöðu í málum þeirra sem tóku erlend og verðtryggð lán.
„Það eru nauðsynlegt að fólk fái leiðréttingu á lánum sínum líkt og búið er að dæma í fyrir dómsstólum. Þetta fólk heldur að sér höndum og skiptir ekki um bíl fyrr en niðurstaða kemur. Á meðan er bílafloti landsins að eldast og er nú meðalaldurinn kominn í 11 ár. Það er of mikið. Það vantar nánast aldursflokkinn 25-45 ára í viðskipti við okkur. Um leið og þessi erlendu lán hafa verið endurreiknuð þá fer markaðurinn aftur af stað.“
Sýning á nýja Toyota Auris og Auris Hybrid bílnum stendur frá 12-16 á morgun, laugardaginn 5. janúar. Þess má geta að Auris fáanlegur frá 3.250.000 kr.-
Hér má sjá umfjöllun um það í Víkurfréttum frá árinu 1998 þegar Toyotasalurinn var opnaður. Ævar og félagar fagna nú 15 ára afmæli.
Nýja Toyota Auris bifreiðin er glæsileg.