Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Nýr stjórnarformaður FLE
Föstudagur 27. apríl 2007 kl. 16:00

Nýr stjórnarformaður FLE

Linda B. Bentsdóttir framkvæmdastjóri er formaður nýrrar stjórnar FLE sem kjörin var á aðalfundi félagsins í gær. Fráfarandi formaður, Gísli Guðmundsson sem og Haraldur Johannessen stjórnarmaður gáfu ekki kost á sér til endurkjörs eftir að hafa setið í stjórn félagsins frá upphafi. Linda hefur ekki setið áður í stjórn FLE. Magnea Guðmundsdóttir var áður í varastjórn en tekur nú sæti í aðalstjórn. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir: Ellert Eiríksson, varaformaður, Jakob Hrafnsson og Eysteinn Jónsson. Nýir varastjórnarmenn eru Björk Guðjónsdóttir og Petrína Baldursdóttir. 

Nýi stjórnarformaðurinn, Linda B. Bentsdóttir, lauk kandídatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1992. Hún er framkvæmdastjóri hjá Inn Fjárfestingu ehf. og situr í stjórn Askar Capital hf. Þar áður starfaði hún sem forstöðumaður og síðar staðgengill framkvæmdastjóra Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á árunum 2000-2006.

Á aðalfundinum var samþykkt að greiða eiganda fyrirtækisins, íslenska ríkinu, 250 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2006. Fram kemur í fréttatilkynningu frá FLE að félagið hafi þar með greitt alls 1.500 milljónir kr. í arð í ríkissjóð frá upphafi félagsins.

Tekjur félagsins jukust á milli ára um 570 milljónir, úr 6213 milljónum upp í 6783, en hagnaður eftir skatta var 22 milljónir.
 
Á árinu 2006 var fjárfest fyrir 4,3 milljarða króna en heildarfjárfestingin er orðin nær sjö milljarðar króna á árunum 2004-2007. Nú er framkvæmdum lokið að mestu og brottfararsvæðið orðið meira en tvöfalt stærra en áður. Rekstur verslunar, þjónustu og afþreyingar af ýmsu tagi er umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr. Í tilkynningunni segir að við þessa endurgerð og stækkun flugstöðvarinnar sé  aðstaða og þjónusta við farþega sambærileg við það sem best þekkist í þeim efnum erlendis.           

Gísli Guðmundsson, fráfarandi stjórnarformaður, vék í máli sínu að þeim miklu breytingum sem hafa orðið á ytra og innra umhverfi Flugstöðvarinnar á þeim tiltölulega skamma tíma sem liðinn er frá því félagið tók til starfa. Brotthvarf Varnarliðsins á sl. ári kalli á enn frekari breytingar og aðlögun á starfseminni á Keflavíkurflugvelli. Móta þurfi skýra stefnu um rekstrarfyrirkomulag, skipulagsmál, framtíðaruppbyggingar- og landnýtingaráform flugvallar- og flugstöðvarsvæðisins í heild sinni. Í þeirri vinnu sem er framundan sé mikilvægt að samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar sem millilandaflugvallar sé sem best tryggð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024