Viðskipti

Nýr eigandi tekur við verslun Omnis í Reykjanesbæ
Björn Ingi Pálsson ásamt starfsfólki sínu í Omnis en myndin var tekin í jólavertíðinni í desember sl.
Laugardagur 14. febrúar 2015 kl. 09:00

Nýr eigandi tekur við verslun Omnis í Reykjanesbæ

Fyrir nokkru tókust samningar um kaup Hóps ehf. á verslun Omnis ehf. í Reykjanesbæ og tóku nýir eigendur við rekstrinum þann 1. febrúar undir nafninu Omnis Reykjanes. Hóp ehf. er að stærstum hluta í eigu Björns Inga Pálssonar, sem stýrt hefur rekstri verslunarinnar undanfarin ár og mun gera svo áfram. Verslunin var nýverið flutt í nýtt húsnæði að Hafnargötu 40. Öll helstu vörumerki í tölvum og tækni eru í boði í versluninni auk þjónustuumboðs fyrir Símann.

Björn Ingi segir spennandi tíma framundan í rekstri verslunarinnar. „Ég hef trú á samfélaginu á Reykjanesi og er sannfærður um að bjartir tímar sé framundan,“ segir Björn og sú trú hafi orðið til þess að hann ákvað að festa kaup á versluninni þegar Omnis kaus að breyta áherslum í rekstri og draga sig út úr rekstri verslana.

Starfsmenn verslunarinnar eru fjórir og hafa flestir starfað hér um árabil og þekkja því vel þarfir sinna viðskiptavina. „Góð þjónusta hefur verið okkar aðalsmerki í gegnum tíðina og sú þjónusta mun aukast ef eitthvað er þegar verslunin er nú komin í eign heimamanna. Við munum áfram starfa mjög náið með okkar birgjum og þannig tryggjum við best samkeppnishæft verð,“ segir Björn að lokum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024