Nýjar verslanir opna í flugstöðinni
Verslanirnar Airport fashion og Blue Lagoon bætast í flóru þeirra verslana sem hafa opnað í endurbættri flugstöð.
Tvær nýjar verslanir hafa opnað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að undanförnu. Þetta eru tískuvöruverslunin Airport fashion og ný verslun frá Bláa lóninu en hún opnaði á nýjum stað í flugstöðinni.
Tískuvöruverslunin Airport fashion býður upp á glæsilegan og vandaðan tískufatnað og fylgihluti fyrir dömur og herra. Mikið úrval vörumerkja er í versluninni, bæði íslensk og erlend. Airport fashion er hluti af norskri verslunarkeðju sem rekur 22 verslanir á flugvöllum í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Írlandi. Verslunin á Keflavíkurflugvelli er stærsta og glæsilegasta verslunin sem fyrirtækið hefur opnað á flugvelli til þessa.
Meðal vörumerkja sem Airport fashion býður upp á er: Farmers Market, Feldur, Spaksmannsspjarir, Sif Jakobs, Hendrikka Waage, By Malene Birger, Esprit, Ane Mone, Hugo Boss, Long Island, Peak Performance og DKNY.
Verslunin Blue Lagoon hefur opnaði í nýrri mynd og á nýjum stað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í versluninni geta viðskiptavinir fengið húðgreiningu með sérstöku appi sem Bláa Lónið hefur hannað til þess að viðkomandi fái réttar húðvörur og meðferð fyrir húðgerðina sína. Þá má prófa vörurnar í versluninni en þar er sérstakt meðferðaborð sem nokkrir gestir geta sest við og notið fræðslu um Blue Lagoon húðvörurnar og þau jákvæðu áhrif sem þær hafa á húðina. Ennfremur er hægt er að sjá og skoða þau einstöku og virku efni sem Bláa Lónið býr yfir, sem eru kísillinn, þörungar og steinefni. Síðast en ekki síst geta hópar sem eru að ferðast saman, t.d. vinkonuhópar, pantað sér tíma og byrjað ferðalagið í versluninni, fengið örkennslu um húðumhirðu, þegið léttan drykk og húðvörugjöf.
Blue Lagoon verslunin er einstaklega glæsileg og var hönnunin í höndum Design Group Italia en Sigurður Þorsteinsson er hönnuður og einn af eigendum Design Group Italia í Milano. Hönnuðurinn leggur áherslu á hlýleika og vísun í hraunið, mosann og kísilinn sem er einkennandi fyrir Bláa Lónið.
Tískuvöruverslunin Airport fashion í flugstöðinni.