Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Nýja bakaríið hættir starfsemi
Fimmtudagur 24. janúar 2013 kl. 08:54

Nýja bakaríið hættir starfsemi

„Já, ég er búinn að loka og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Ég hreinlega nennti þessu ekki lengur,“ segir Eyjólfur Hafsteinsson, bakari og eigandi Nýja bakarísins við Hafnargötu 31 í Keflavík í Víkurfréttum í dag. Á einu ári hafa a.m.k. fjögur fyrirtæki í verslun og þjónustu við Hafnargötu lokað.

Langri sögu bakarís við Hafnargötu 31 er lokið í bili en Eyjólfur hefur verið þar með rekstur í aldarfjórðung, byrjaði ungur maður með félaga sínum, Ólafi Ingiberssyni um áramótin 1987-1988 en einn frá árinu 1998. Þeir tóku við af Gunnari Sigurjónssyni, bakara sem hafði bakað þarna í nokkra áratugi. Um hálfrar aldar bakaríssögu í þessu húsnæði er lokið í bili.

„Þetta er búið að eiga sér nokkuð langan aðdraganda en svo ákvað ég að hætta þessu núna um áramótin eftir mjög slakan desember. Þróunin hefur verið slæm í rekstrinum. Sumarið í fyrra var slakt en hafði verið mjög gott árið á undan. Krakkarnir og barnapíurnar eru hætt að koma við í snúð og kókómjólk, eru bara með nammipoka með sér og virðast ekki hafa peninga á milli handanna. Snúðabakstur er nánast að leggjast af og bakaragreinin held ég líka,“ segir Eyjólfur dapur í bragði og segir að erfiðari rekstur sé ekki eingöngu ástæðan.

- Sjá nánar í Víkurfréttum sem koma út í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024