Nýir rekstraraðilar með Víkingaheima í Reykjanesbæ
Þann 17. júní tekur nýr aðili við rekstri Víkingaheima í Njarðvík. Það er félagið Víkingaheimar, en eigendur þess hafa sérhæft sig í útgáfu á bókmenntum frá miðöldum. Reykjanesbær er áfram eigandi að safninu og sýningunum en setur reksturinn nú í hendur einkaaðila. Nýir rekstraraðilar hyggja á uppbyggingu í tengslum við safnið í samstarfi við fjárfesta í ferðaþjónustu.
Safnið Víkingaheimar var byggt upp í kringum víkingaskipið Íslending, sem Gunnar Marel Eggertsson byggði og sigldi til New York, árið 2000 í tengslum við þúsund ára ártíð landafunda Leifs Eiríkssonar. Í kjölfarið var byggt hús utan um skipið teiknað af Guðmundi Jónssyni arkitekt. Sýningar í Víkingaheimum eru fimm talsins:
VÍKINGAR NORÐUR-ATLANTSHAFSINS
Sýning um siglingar og landnám norrænna manna og þátt þeirra í landafundum Norður- Ameríku. Sýningin var unnin í samstarfi við Smithsonian stofnunina í Bandaríkjunum.
VÍKINGASKIPIÐ ÍSLENDINGUR
Skipið er nákvæm eftirgerð af Gauksstaða skipinu, níundu aldar víkingaskipi og sigldi árið 2000 yfir Atlantshafið til að minnast ferðar Leifs Eiríkssonar til Nýja heimsins þúsund árum fyrr.
LANDNÁM Á ÍSLANDI
Merkar fornleifar af Suðurnesjum. Minjar um elstu byggð á Reykjanesi, nánar tiltekið frá Vogi í Höfnum og Hafurbjarnarstöðum.
ÖRLÖG GUÐANNA
Sýning um norræna goðafræði og goðsögur þar sem myndlist, frásögn og tónlist fléttast saman í eina heild. Sýningin er samin og unnin af viðurkenndum íslenskum samtímalistamönnum og norrænufræðingum sem þarna skapa nútímalegt listaverk um fornan menningararf.
SÖGUSLÓÐIR Á ÍSLANDI
Kynning á helstu söguslóðum Íslands unnin í samstarfi við Samtök um sögutengda ferðaþjónustu. Rúmlega 30 staðir, söfn, sýningar, minjar, hátíðir, mannvirki og slóðir ákveðinna sagna er kynnt hér.