Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Nýir eigendur taka við rekstri Vitans
F.v.: Elfar Logason, Bergljót Bára, Stefán Sigurðsson, Brynhildur Kristjánsdóttir, Símon Haukur Guðmundsson og Arna Björk Unnsteinsdóttir. Á myndinni að neðan má sjá krabba- og skelfiskveislu í anda Vitans. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 10. júní 2022 kl. 08:52

Nýir eigendur taka við rekstri Vitans

- Grjótkrabbinn verður aftur í boði

Tvenn hjón úr Sandgerði hafa keypt húsnæði og rekstur veitingahússins Vitans í Sandgerði af hjónunum Stefáni Sigurðssyni og Brynhildi Kristjánsdóttur. Þau höfðu rekið Vitann í nær fjóra áratugi, hófu rekstur 1982 en Vitinn hefur verið lokaður síðustu tvö ár vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Stefán og Brynhildur hafa verið síðustu mánuði á Kanaríeyjum og notið heitara loftlags. Stefán hefur þó ekki alvega sagt skilið við potta og pönnur, hann hefur m.a. verið að kokka á hinum kunna Klörubar. Í samtali við Víkurfréttir segist Brynhildur eiga eftir að sakna Vitans. Stefán sagðist ekki sammála henni þar og ætlaði að njóta þess að vera sestur í helgan stein.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nýir eigendur Vitans eru tvenn hjón úr Sandgerði. Arna Björk Unnsteinsdóttir og Símon Haukur Guðmundsson annarsvegar og Bergljót Bára og Elfar Logason hinsvegar. Í samtali við Víkurfréttir sögðust þau ætla að glæða Vitann lífi að nýju. „Við munum nýta gamalt og gott en einnig setja okkar brag á staðinn. Hér er góður grunnur og gott að byggja ofan á hann,“ sögðu þau aðspurð um hvort ráðist yrði í miklar breytingar.

Krabbaveisla Vitans naut mikilla vinsælda og verður aftur í boði hjá nýjum eigendum.

Vitinn var með matseðil í hádegi og á kvöldin þegar þau Stefán og Brynhildur ráku staðinn. Nýir eigendur ætla að hafa opið allan daginn alla daga. Vitinn hafði skapað sér sérstöðu með því að bjóða upp á grjótkrabba sem alinn var lifandi í kerjum við veitingahúsið. Grjótkrabbinn mun aftur rata á matseðil staðarins.

Frá því Vitinn lokaði fyrir tveimur árum hefur ekki verið rekið veitingahús í Sandgerði og segjast nýir eigendur vera að auka þjónustu við bæjarbúa. Þá er einnig markmið nýrra eigenda að sækja á ferðamannamarkaðinn og fá ferðamenn, bæði íslenska sem erlenda, til að stoppa í Sandgerði og gera vel við sig í mat.

Formleg opnun Vitans hefur ekki verið tímasett en hún verður bráðlega og vonandi fyrir haustið.

Brynhildur Kristjánsdóttir og Stefán Sigurðsson á Vitanum á upphafsárum Vitans. Mynd úr safni Víkurfrétta