Nýir eigendur taka við Martaki
Jón Ósmann Arason leiðir hóp nýrra eigenda sem keypt hafa Martak ehf. í Grindavík. Fyrirtækið var stofnað árið 1995 af Ómari Ásgeirssyni. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að hann hafi byggt það upp frá grunni og að nú sé það annað af tveimur leiðandi fyrirtækjum í heiminum í lausnum fyrir rækjuvinnslu. Lykilstarfsmenn Martaks eru í eigendahópnum.
Markmið nýrra eigenda er að byggja á sterkum grunni fyrirtækisins í lausnum fyrir fiskvinnslu og sjávarútveg og nýta viðskiptasambönd sín til sækja fram á mörkuðum. Þeir telja veruleg tækifæri fólgin í því að breikka viðskiptamannahópinn innan matvælaiðnaðar og leita nýrra markaða fyrir lausnir félagsins. „Martak hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og náð markverðum árangri sem annað tveggja fyrirtækja í heiminum með heildarlausnir fyrir rækjuvinnslu. Það er tilhlökkunarefni að takast á við verkefni fyrirtækisins með nýjum eigendum sem horfa til langtíma uppbyggingar og sóknar,“ segir Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri Martaks sem mun áfram leiða fyrirtækið.
Hjá Martak starfa að jafnaði um 20 manns á Íslandi. Fyrirtækið er með tvær starfsstöðvar; vöruþróun, framleiðslu, sölu og þjónustu á Íslandi og sölu og þjónustu í Kanada. Auk þess starfa umboðsmenn og dreifingaraðilar í Bandaríkjunum og víðs vegar um Evrópu.