Nýir eigendur að Ship o Hoj
Margrét Örlygsdóttir og Gunnar Sigurðsson hafa keypt rekstur verslunarinnar Ship o Hoj af þeim Gunnari Örlygssyni og Arthuri Galvez. Ship o Hoj býður upp á ferskar fisk- og kjötvörur í smá- & heildsölu og er auk þess með veitinga- og veisluþjónustu. Reksturinn í Reykjanesbæ hófst í byrjun október 2013 og hefur verið verið hægt og bítandi að festa sig í sessi.
„Reksturinn verður áfram innan fjölskyldunnar þar sem systir mín Margrét mun taka við keflinu. Hún er kunn fyrir frábæra matseld og hefur nef fyrir þessu. Ship o Hoj mun án efa eflast fyrir vikið enda mikilvægt að eigendur starfi sjálfir öllum stundum að rekstri sem þessum. Fiskvinnsla okkar Arthurs í Sandgerði er að færa út kvíarnar og því var ákveðið að einbeita sér að þeim breytingum sem framundan eru í Sandgerði. Okkar fyrirtæki, AG Seafood, mun sem fyrr halda áfram að útvega ferskar sjávarafurðir til Ship o Hoj,” segir í tilkynningu frá Gunnari Örlygssyni.