Nýherji í samstarf við Verne Global - mikill vöxtur hjá gagnaverinu
Mikill vöxtur hefur verið hjá Verne Global gagnaverinu á Ásbrú en nýlega var greint frá því að það hafi leigt 60 þús. fm. lóð til 99 ára af Kadeco, Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, en fyrir var Verne með 180.000 fm.
„Við þurfum einfaldlega meira pláss. Verne hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og við erum að stækka við okkur núna og búumst við að þurfa að nota það pláss á næstu árum. Það var alltaf möguleiki að við þyrftum að gera það og núna vorum við að ganga frá því,“ sagði Isaac Kato, einn stofnenda og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Verne Global um stækkunina við Viðskiptablaðið.
Þá var nýlega greint frá því að upplýsingatæknifyrirtækið Nýherji hafi ákveðið að flytja hýsingarþjónustu sína í gagnaver Verne á Ásbrú.
Í tilkynningu frá Nýherja segir að með breytingunni sé verið að tryggja viðskiptavinum fyrirtækisins aðgang að fullkomnasta gagnaveri landsins, í aðstöðu sem jafnist við það besta í heiminum. Nýherji og Verne muni einnig í framhaldinu hefja samstarf um að veita viðskiptavinum betri lausnir í hýsingarþjónustu og uppbyggingu gagnaversiðnaðar á Íslandi.