Ný Toyota „almenningseign“ kynnt – engin læti á frumsýningunni
„Það hafa margir komið og skoðað en það eru ekki sömu söluviðbrögð og í góðærinu, eðlilega,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson sölumaður hjá Toyota salnum í Njarðvík en um síðustu helgi var kynntur til sögunnar 2010 árgerðin af nýjum Landcrusier 150 jeppa.
Þessi vinsælasti jeppi landsins sem fékk nafnið „almenningseign“ hjá mörgum í góðærinu, í ljósi vinsælda hans á undanförnum árum, hefur um það bil tvöfaldast í verði á tveimur árum. Í lok góðærisins var hægt að fá VX gerð bifreiðarinnar sem er með mörgum aukahlutum eins og t.d. leðursætum, rafmagni og sjálfskiptinu, á um 6 milljónir króna. Í dag kostar slíkur bíll rétt rúmar 13 milljónir króna. GX gerð „krúsersins“ er til sýnis í Toyota salnum en hún kostar 10,6 millj. kr. Ýmsar nýjungar eru í nýja „krúsernum“ og hann er sem fyrr ljúfur og lipur en líklega hafa útlitshönnuðir Toyota verið í fríi. Svolítið 2009 dæmi þar á ferð eða „copy - peist“ - því útlitið hefur lítið breyst.
Bílasala á nýjum bílum hefur er aðeins brot af því sem hún var í góðærinu en 2009 féll hún um 90% frá árinu áður. Stór hluti nýrra bíla sem seldust í góðærinu voru þegar vextir á húsnæðislánum voru í lámarki. Margir fengu „aukapening“ að láni í bönkunum í skuldbreytingu húsnæðislána góðærisins. Fjöldi fólks er í vandræðum vegna þess í dag með erlend lán á bílum „sínum“.
Bílasala á notuðum var þokkaleg á síðasta ári en hefur ekki verið góð í upphafi ársins 2010.
VF/mynd: Jón Halldór brattur við nýja „krúserinn“ í Toyota salnum í Njarðvík.