Ný tískuvöruverslun opnar við Hafnargötuna í apríl
Ný tískuvöruverslun, Gallerí Keflavík mun opna á Hafnargötunni í apríl, en verslunin er á vegum fyrirtækisins NTC sem m.a. rekur verslanirnar 17. Rekstraraðili Gallerí Keflavík er Guðrún Reynisdóttir. „Við viljum efla verslun á Suðurnesjum og við viljum taka þátt í því, en á síðustu mánuðum hefur Hafnargatan tekið stakkaskiptum og það teljum við mjög jákvætt. En það þarf að gera meira og allt nýtt sem kemur hlýtur að teljast jákvætt,“ sagði Guðrún í samtali við Víkurfréttir.
Að sögn Ásgeirs Bolla Kristinssonar forstjóra NTC er verið að skoða 4-5 húsnæði sem koma til greina undir verslunina. „Við höfum nú þegar pantað inn vörur í verslunina og smíði innréttinga er hafin,“ segir Ásgeir Bolli.
Verslunin sem opnuð verður við Hafnargötuna verður svipuð og verslunin Gallerí Akureyri sem staðsett er við Strandgötuna á Akureyri, en verslunin var opnuð í apríl á síðasta ári. Að sögn Ásgeirs Bolla verður mikið vöruúrval í Gallerí Keflavík þar sem boðið er upp á vörur úr verslununum NTC.
Ljósmynd: Úr verslun Galleri Akureyri, en verslunin sem mun opna við Hafnargötuna verður svipuð þeirri á Akureyri.