Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 2. júlí 1999 kl. 00:20

NÝ STEYPUSTÖÐ RISIN Í HELGUVÍK

Feðgarnir Einar Svavarsson, Geir Sædal og Svavar Einarsson hafa opnað steypustöðina Steypan að Stakksbraut 51 í Helguvík og fengið á hana löggildingu og starfsleyfi, nokkuð sem aðeins örfáar steypustöðvar landsins geta státað af. Þeir feðgar eiga fyrir Malbikunarstöð Suðurnesja sem staðsett er á sama stað. „Við vildum bjóða Suðurnesjamönnum upp á fleiri valkosti og jafnframt sáum að með því að reisa steypustöð gætum við betur samnýtt tæki og starfsfólk malbikunarstöðvarinnar. Uppbygging stöðvarinnar hófst í janúar 1999 og hófum við að framleiða steypu þann 10. maí sl. Vandað er að öllum búnaði í stöðinni sem er 100% tölvukeyrð með stafrænum vigtum og er steypan hrærð í bílana með rúmmetershrærivél. Kerfið er íslensk hönnun sem Tæknival stóð að og hefur fengið mikið hól hjá fagmönnum í bransanum. Á fimmtíu rúmmetra fresti eru teknar prufur þar sem steypustyrkur, loft-, sig- og vatnsinnihald er yfirfarið. Suðurnesjamenn hafa á undanförnum árum sótt steypu í stórum stíl á höfuðborgarsvæðið. Við teljum að með okkar stöð séum við að bjóða ekki síðri vöru en aðrir. Bjóðum við jafnframt upp á hágæðasteinefni frá Noregi. Við flytjum inn Årdal steinefni sem eru tífalt sterkari en það grjót sem í boði er hér á Suðurnesjum. Þetta er nýtt hérlendis en þó hefur Årdal steinefni verið flutt inn til byggingar ákveðinna bygginga hjá Reykjavíkurborg, t.d. Ráðhús Reykjavíkurborgar. Steypublanda með þessum steinefnum margfaldar slitþol efnisins og er ég sannfærður um að þessi steypa mun ná hylli almennings því hún er ekki dýrari en slitþolið meira. Þá vinnum við, í samvinnu við dr. Ólaf Wallevik hjá Rannsóknarstofnun Byggingariðnaðarins, að þróun nýrrar gerðar af steypu sem er sjálfútleggjandi. Þeirri steypu er dælt í mót og leggur sig út sjálf án aðstoðar nokkurra tækja. Vonumst við til að geta boðið upp á hana seinni partinn í sumar.“ sagði Geir Sædal. Svavar Einarsson sagði afgreiðsluna og útkeyrsluna í sínum höndum. Við eigum 3 steypubíla með 12 metra færiböndum og krana en stefnt er að því að kaupa dælubíl á árinu. „Vegna þess að steypan er hrærð á staðnum en ekki í bílunum er vel mögulegt fyrir þá sem eru að kaupa lítið að sækja steypuna sjálfir og spara sér aksturskostnaðinn. Þegar steypan berst kaupandanum í hendur þá er honum afhentur afgreiðsluseðill þar sem sjá má öll efni sem sett eru í steypuna, sand, möl, cement, íbætiefni eins loftblendi eða mýkingarefni, vatn, trefjar, litaefni og framvegis. Með þessu er tryggt að efnið sem kaupandinn fær í hendurnar er samkvæmt ströngustu ISO stöðlum“ sagði Svavar ennfremur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024