Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 12. júlí 2002 kl. 15:45

Ný Sparkaups-verslun í Garði á teikniborðinu

Framkvæmdir við nýja Sparkaups-verslun í Garði munu vonandi hefjast fljótlega. Fulltrúar Samkaupa hf. hafa átt í viðræðum við sveitarstjórnina í Garði um málið. Skúli Skúlason hjá Samkaup hf. sagði í samtali við Víkurfréttir að þar á bæ hefðu menn mikinn áhuga á að byggja nýtt verslunarhúsnæði, sem yrði svipað og ný Sparkaups-verslun í Sandgerði.Að sögn Skúla hafa þeir verið að leita að heppilegri lóð fyrir verslunina. Meðal annars er verið að skoða byggingu verslunarhúss á horni Heiðartúns og Silfurtúns, ofan við bensínstöð ESSO. Skúli sagði aðspurður engar viðræður hafi átt sér stað við ESSO um annað en hugsanleg afnot af bílastæðum. Það að Sparkaup byggi verslun við hliðina á ESSO-stöðinni myndi væntanlega styrkja þjónustu á nærliggjandi svæði.

Sparkaup reka í dag matvöruverslun í eldra húsnæði við Gerðaveg í Garði, sem fyrir löngu er orðið alltof lítið og væntingar Garðmanna orðnar háværar um nýja matvöruverslun með auknu vöruúrvali í byggðarlagið. Skúli sagði það forgangsverkefni hjá Samkaupum að bæta aðbúnað og þjónustu við íbúa Gerðahrepps.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024