Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Ný saltverksmiðja með stóra sölusamninga
Föstudagur 20. september 2002 kl. 16:26

Ný saltverksmiðja með stóra sölusamninga

Í lok þessa mánaðar mun Saltverksmiðjan á Reykjanesi taka til starfa á ný eftir þó nokkurt hlé. Sævar Pétursson rekstrarráðgjafi hefur unnið að endurreisn rekstrarins síðasta mánuð og er hann starfandi framkvæmdastjóri. Sævar segir að nú þegar sé búið að gera sölusamninga við nokkra stóra aðila og munu þeir fá saltið afhent innan 30 daga. Að sögn Sævars er allur búnaður verksmiðjunnar í lagi og segir hann að farið verði hægt af stað:„Við komum til með að fara rólega af stað og þróa okkur áfram.„ Sævar segir að saltið sem framleitt sé í verksmiðjunni sé einstakt því í saltinu er um 60% minna natríum en í venjulegu salti: „Ég tel að það séu miklir möguleikar fyrir þetta svæði með saltverksmiðjunni. Við erum með einstaka auðlind þarna úti og við getum svo sannarlega sagt að við séum að framleiða heilsusalt, sem er mjög gott fyrir hjartasjúklinga til dæmis. Það getur enginn framleitt svona salt nema við, en það hefur verið reynt að blanda salt til að minnka natríum innihaldið í því.“ Saltið sem framleitt verður í verksmiðjunni verður pakkað á Akureyri og í Danmörku, en Sævar segir að í framtíðinni horfi menn á þann möguleika að pakka framleiðslunni á Suðurnesjum: „Ég er mjög bjartsýnn á að reksturinn gangi vel en það er aðalmálið að fara hægt af stað, ná fleiri sölusamningum og þróa reksturinn síðan áfram,“ segir Sævar að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024