Nikelsvæði: Hægt að bjóða í lóðir á netinu
Á svokölluðu Nikel-svæði í Reykjanesbæ, á gömlu bæjarmörkunum sem áður skildu að Keflavík og Njarðvík, hefur fyrirtækið Miðland ehf látið gera deiliskipulag að nýju hverfi sem fengið hefur nafnið Hlíðahverfi.
Tuttugu og átta einbýlishúsalóðir í fyrsta áfanga hverfisins eru boðnar til sölu á uppboðsvef Miðlands ehf. Þetta fyrirkomulag heyrir til nýmæla en ekki er vitað til þess að lóðasala hafi farið fram með þessum hætti áður hér á landi. Fyrirmynd vefsins er sótt til hins vinsæla uppboðsvefs, Ebay.
Vefurinn einnig sölukerfi
Allir geta skoðað deiliskipulagið á vef Miðlands, www.midland.is en þeir sem skrá sig sem notendur á vefnum geta séð hvaða lóðir eru í boði hverju sinni, fengið nánari upplýsingar um þær og gert tilboð.
„Það fyrirkomulag var ákveðið til að sía út þá sem eru í alvöru að spá í lóðir á svæðinu. Með því getum við líka haldið betur utan um málin og verið betur í tengslum við þá sem hafa áhuga“, sagði Elías Georgsson, annar eiganda Miðlands ehf í samtali við VF.
Grunnverð allra lóða er 3,5 milljónir, þ.e. engin lóð er seld fyrir minni fjárhæð. Vefurinn er jafnframt hugsaður sem tæki til að halda utan um lóðasöluna á svæðinu þannig að þeir sem annast söluna vinna í gegnum kerfið á vefsíðunni.
Flestir velja gamla lagið
Mikill áhugi virðist vera fyrir lóðum í hverfinu en um 4000 manns komu inn á uppboðsvef Miðlands ehf fyrstu þrjá dagana eftir að hann var opnaður fyrir skemmstu. Þó vilja fæstir þeir sem sýna lóðunum áhuga nota vefinn í þeim tilgangi að festa kaup á þeim.
„Það að bjóða í lóðir á vefnum er algjörlega nýtt fyrir fólki. Þarna er um að ræða stór viðskipti þar sem talsverðar fjárhæðir eru í spilinu og slík viðskipti vill fólk eiga upp á gamla, góða mátann þ.e. með persónulegum samskiptum. Þess vegna er mikið um það að fólk hafi bara samband við okkur beint“, sagði Elías.
Lágreist byggð í fallegu umhverfi
Guðlaug Erna Jónsdóttir, hönnuður deiliskipulagsins, segir að lögð hafi verið áhersla á jafna blöndun húsagerða á svæðinu. Um lágreista byggð sé að ræða þar sem hæstu húsin séu ekki meira en þrjár hæðir. Þá hafi verið lögð áhersla á góðar gönguleiðir sem munu tengjast þeim sem fyrir eru í önnur hverfi bæjarins og útivistarsvæði.
Lögð sé áhersla á fallegt og vistlegt hverfi og verða t.d. allar götur hellulagðar.
Reiknað er með að hverfið byggist upp í þremur áföngum og eru 28 einbýlishúsalóðir í boði í fyrsta áfanga. Elías segir staðsetningu svæðisins mjög ákjósanlega fyrir íbúabyggð en frá miðju hverfisins séu aldrei meira en 1500 metrar í nánast alla þjónustu bæjarins.
www.midland.is