Nettó opnar verslun á Selfossi
Á sama tíma og verslanakeðjur landsins eru almennt að loka einingum eða skerða þjónustu vinnur Nettó að opnun sinnar 10. verslunar á landinu. Að sögn Gunnars Egils forstöðumanns rekstrarsviðs Nettó hefur verslunin átt gríðarlegum vinsældum að fagna og nú síðast var Mjóddin gerð að fyrstu lágvöruverðsverslun landsins sem er með sólahrings opnun. Viðtökur við þessari nýjung voru gríðarlega góðar og nú hefur verið ákveðið að framhald verði á og í skoðun hvort fleiri verslanir innan keðjunnar geti staðið undir slíkum opnunartíma.
Nettó verslun mun opna að Austurvegi 42 á Selfossi nú í vor. Um er að ræða rúmlega 1.000 fermetra verslunarrými á besta stað. Nettó Selfossi verður því tíunda Nettó verslunin á landinu.
„Verslunin verður byggð upp í sama stíl og aðrar Nettó verslanir. Lögð verður áhersla á lágt verð og mikið vöruval eins og alltaf. Sett verður upp úðunarkerfi í grænmetistorgi sem viðheldur lengur ferskleika ávaxta og grænmetis. Vöruval í dagvöru verður mikið og hefðbundin sérvara á góðu verði verður á sínum stað. Sett verður upp „Bakað á staðnum“ sem slegið hefur í gegn í Nettó verslunum, enda gæðin mikil, verðin lág og öflug tilboð. Á tímum þegar verið er að loka verslunum eða draga úr þjónustu heldur Nettó áfram að stækka sitt þjónustusvæð,“ segir Gunnar.