Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Nettó opnar græna verslun í Grindavík
Föstudagur 15. apríl 2022 kl. 08:18

Nettó opnar græna verslun í Grindavík

Nettó í Grindavík opnaði þann 13. apríl dyrnar að nýrri og endurbættri grænni verslun. Um ræðir umfangsmiklar breytingar sem staðið hafa yfir undanfarnar vikur en verslunin hefur stækkað talsvert, eða um 280 fm2 og fer þar ríflegur hluti undir veglega grænmetis- og ávaxtadeild, þá hefur pláss fyrir ferskvöru  stóraukist og búið er að útbúa einkar glæsilega heilsuvörudeild. 

„Nettó í Grindavík er nú orðin græn verslun og þar með eru grænar verslanir Nettó orðnar þrjár. Með því að gera verslunina græna, erum við að draga stórkostlega úr kolefnissporinu sem er mikilvægt skref fyrir okkur, en umhverfismál og samfélagsleg ábyrgð hafa verið í brennidepli hjá Samkaupum undanfarin ár. Þessi græna breyting felur til að mynda í sér að búið er að skipta út öllum kælum og fyrstum sem ganga fyrir freoni og nú eru einungis notuð tæki sem ganga fyrir koltvísýringi. Þá eru allir kælar og frystar lokaðir og notast er við svokallað  CO2 kælikerfi. LED lýsingin er sömuleiðis allsráðandi, en auk þess að vera umhverfisvænni kostur en önnur lýsing, þá tryggir hún betri vörugæði. Við flokkum allt sorp og höfum alfarið hætt að notast við útprentaða verðmiða á hillur og erum því algjörlega stafræn í þeim efnum,“ segir Hallur Geir Heiðarsson, rekstrarstjóri Nettó.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samhliða stórtækum og umhverfisvænum breytingum er verslunin sem fyrr segir nú talsvert rýmri og því fylgir stóraukið vöruúrval. Einnig hefur hefur allt aðgengi verið bætt til muna. Rekkar hafa verið lækkaðir og allt skipulag endurskoðað, auk þess sem sjálfsafgreiðslukassar hafa verið settir upp. Á næstu vikum verður svo hraðhleðslustöð frá Ísorku tekin í gagnið á planinu við verslunina.

„Verkefnið hefur tekið dágóðan tíma og við höfum haft verslunina opna á meðan á breytingum stóð. Við erum afskaplega þakklát bæjarbúum fyrir auðsýnda þolinmæði og starfsfólki fyrir frábært starf. Það verður því gaman að opna dyrnar formlega á miðvikudaginn og sýna viðskiptavinum afraksturinn. Við hlökkum mikið til og munum bjóða upp á  köku og kaffi og ís fyrir börnin meðan birgðir endast. Einnig verða kynningar á appinu auk þess sem viðskiptavinir sem nýta sér appið dagana 13.–19. apríl komast í lukkupott og geta unnið veglega vinninga í formi inneigna,“ bætir Hallur við.

Sebastian Boguslaw Rebisz, verslunarstjóri Nettó í Grindavík, í stærri og endurbættri verslun.