Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Nettó með eigin netverslun
Heiðar Róbert Birnuson rekstrarstjóri Nettó og Dagbjört Vestmann Birgisdóttir, rekstrarstjóri netverslunar Samkaupa.
Þriðjudagur 13. september 2022 kl. 15:41

Nettó með eigin netverslun

Nettó hefur sett eigin netverslun, netto.is í loftið. Verslunin hefur haldið úti netverslun síðastliðin 5 ár í samstarfi við Aha.is en nú er reksturinn alfarið í höndum Nettó. Nettó var fyrsta lágvöruverðsverslunin til að opna netverslun og sömuleiðis fyrst til að senda heim hérlendis. Nettó hefur frá upphafi verið leiðandi á þessu sviði og neytendur hafa hvergi val um fleiri vörunúmer í matvöru, þegar þeir versla á netinu, segir í tilkynningu frá Nettó.

Nýju netversluninni er ætlað að mæta auknum kröfum viðskiptavina á netinu, en umfang netverslunar Nettó hefur margfaldast frá því að hún var opnuð í september 2017. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helstu breytingarnar sem notendurnir munu taka eftir snúa að viðmóti auk þess sem nú er komin tenging við Samkaupa-appið. Tengingin skilar viðskiptavinum 2% afslætti af matarkörfunni, hvort sem verslað er í vefverslun eða í gegnum appið. Appið hefur slegið í gegn á skömmum tíma meðal neytenda og er orðið að einu stærsta vildarkerfi á landinu, með hátt í 50 þúsund notendur.

„Fimm ár eru langur tími á netinu og til að halda því forskoti sem við náðum í byrjun þá þurfum við að vera tilbúin að stíga næstu skref og því höfum við þróað okkar eigin netverslun. Við höfum átt í farsælu samstarfi með Aha.is en við höfum fulla trú á að netverslun verði hluti af okkar kjarnastarfsemi á næstu árum samhliða því sem hlutdeild hennar á matvörumarkaðnum eykst. Í dag þjónustar netverslunin okkar bæði höfuðborgarsvæðið og viðskiptavini um allt land en opnun eigin netverslunar er mikilvægur liður í að bæta þjónustu við landsmenn alla auk þess sem með þessu erum við halda áfram að einfalda og bæta upplifun fólks við matarinnkaupin,“ segir Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó. 

„Við höfum samþætt nýju netverslunina og appið, sem gerir okkur kleift að bjóða öllum okkar viðskiptavinum upp á sérkjör og afslætti í formi inneigna. Að halda sjálf utan um alla þætti netverslunarinnar gefur okkur tækifæri til að prófa okkur áfram með spennandi tækninýjungar og við erum þá þegar með fjölmörg spennandi verkefni á teikniborðinu,“ segir Dagbjört Vestmann Birgisdóttir, rekstrarstjóri netverslunar hjá Samkaupum.