Netsamskipti og Símafélagið sameinast
Símafélagið og Netsamskipti hafa komist að samkomulagi um að sameina rekstur félaganna undir merkjum Símafélagsins og styrkja starfsstöð sameinaðs reksturs á Suðurnesjum.
Félögin hafa á undanförnum árum aukið samstarf sitt verulega og hófu Netsamskipti til að mynda á síðasta ári að bjóða upp á símaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja á kerfum Símafélagsins. Félögin höfðu áður sameinað útlandagáttir sínar fyrir Internet og þótti sameiginlegur rekstur því eðlilegt framhald á samstarfinu. Með þeirri hagræðingu sem myndast með sameiningunni eykst rekstraröryggi, þjónustustig og vöruframboð.
Netsamskipti er eitt elsta Internetfyrirtæki landsins en það er stofnað árið 1994. Félagið er staðsett í hjarta Reykjanesbæjar og hefur veitt Suðurnesjabúum netþjónustu, hýsingarþjónustu, tækniþjónustu og nýverið einnig símaþjónustu. Viðskiptavinir eru bæði einstaklingar og fyrirtæki og hefur félagið lagt áherslu á að veita heimamönnum fyrsta flokks þjónustu í sinni heimabyggð. Símafélagið hóf starfsemi 1. nóvember 2008 og hefur á þeim tíma byggt upp mjög öflugt grunnnet á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi, Akureyri og víða á Norðausturlandi. Símafélagið hefur frá upphafi lagt áherslu á að byggja upp sín eigin kerfi, bæði fyrir Internet og síma og rekur nú eitt af þremur stærstu grunnkerfum landsins.
„Félögin starfa bæði í fjarskiptum og starfsemin í kjarna sínum það lík að sameining var mjög jákvætt skref fyrir báða aðila. Það sem þetta þýðir fyrir Suðurnesjamenn er að mjög öflugt fjarskiptafélag verður með starfsemi á svæðinu og getur sinnt viðskiptavinum sínum mjög vel. Við verðum til að mynda áfram með skrifstofu á Hafnargötu 35 í “ segir Brynjar Jónsson, framkvæmdarstjóri Netsamskipta. ,
,Með sameiningunni verður til stærri og öflugri rekstareining og gefur okkur aukna möguleika að mæta betur þeim fjölmörgu verkefnum sem framundan eru. Mannauðurinn er mjög mikill og hér er verðmæt sérþekking og kunnáttta. Framundan eru spennandi tímar enda sjáum við mikla möguleika í þessum geira," segir Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri Símafélagsins.