Múrbúðin opnar í Reykjanesbæ
Múrbúðin opnaði í dag nýja verslun í Reykjanesbæ en hún er staðsett við Fuglavík á nýju iðnaðarsvæði sem óðum er að rísa á Helguvíkursvæðinu. Innan skamms verða verslanir fyrirtækisins orðnar fjórar því opnun nýrrar verslunar á Akureyri stendur fyrir dyrum. Fyrir rekur Múrbúðin tvær verslanir á Stór – Reykjavíkursvæðinu.
Að sögn Baldurs Björnssonar, framkvæmdastjóra, hefur Múrbúðin átt dyggan hóp viðskiptavina á Suðurnesjum. Hvatning þeirra hafi ýtt undir þá ákvörðun að opna verslun á svæðinu sem og fjölda annarra sem hafi viljað fá meiri samkeppni inn á svæðið.
Múrbúðin er löngu orðin þekkt af verslunarháttum og verðlagsstefnu kenndri við Musko, sem gengur út gott verð fyrir alla og gegnsæ viðskiptakjör. Fræg er auglýsingaherferð Múrbúðarinnar í þessum efnum sem hristi nokkuð upp í byggingavörumarkaðnum á Íslandi. Baldur fullyrðir að það hafi haft í för með sér lækkun vöruverðs á byggingavöru í landinu.
Múrbúðin í Reykjanesbæ er í 1500 fermetra björtu og rúmgóðu húsnæði. Vöruúrval og verð er að sjálfsögðu það sama og í öðrum verslunum fyrirtækisins, sem selur alla bygginginagvöru „frá fokheldni í hús“. Múrbúðin hefur m.a. lagt áherslu á múr- og flotefni og múrkerfi. Einnig er boðið upp á fjölbreytt vöruúrval af málningu, þéttiefnum, verkfærum og verkfæraleigu.
Verslunarstjóri Múrbúðarinnar er Suðurnesjamaðurinn Róbert Fisher. Afgreiðslutími er frá kl. 8-18 alla virka daga og frá 9 – 14 á laugardögum.