Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mánudagur 6. október 2003 kl. 17:08

MSS: Staðbundið leiðsögunám á Reykjanesi

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum áætlar að fara af stað með staðbundið leiðsögunám á Reykjanesi. Af því  tilefni ræddu Víkurfréttir við Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanns MSS.

Hvaða  nám er þetta og hversu langt er það?
Staðbundið leiðsögunám er nám þar sem nemendur læra allt um viðkomandi svæði og fá starfsréttindi sem svæðaleiðsögumenn. Staðbundið leiðsögunám nær yfir 192 kennslustundir og verður kennt hér á næstu tveimur önnum. Þau fög sem verða kennd eru ferðaþjónusta, tungumálanotkun, leiðsögutækni, raungreinar, samfélagsgreinar, skyndihjálp, svæðalýsingar og vettvangsnám. Farnar verða ferðir um svæðið þar sem nemendur munu læra allt um Reykjanesið.

Fyrir hverja er þetta nám?
Það má segja að  þetta nám sé fyrir alla þ.e.a.s. alla þá sem hafa áhuga á að þekkja svæðið vel. Þeir sem vinna í ferðaþjónustu eiga sérstaklega mikið erindi í námið. Þetta getur hentað þeim einstaklingum sem vilja starfa sem leiðsögumenn. Þeir sem ljúka þessu námi fá réttindi sem svæðaleiðsögumenn á Reykjanesi. Í því felast ákveðin starfsréttindi. Kennslu fyrirkomulagið verður þannig að kennt verður á kvöldin og um helgar þegar við á.

Er ekki mikill kostnaður við svona nám?
Jú mikill kostnaður felst í svona námi en við búum svo vel að ýmis fyrirtæki hafa styrkt verkefnið s.s. SSS, SBK, Sparisjóðurinn og Íslandsbanki. Einnig munu nokkrir aðilar styðja verkefnið með kennslu s.s. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur, Fræðasetrið í Sandgerði, Menningarfulltrúi Reykjanesbæjar og Atvinnumálafulltrúi Suðurnesja. Með þessum styrkjum hefur tekist að koma námskostnaði niður í 85.000 kr á einstakling. Þá má benda á að starfsmenntunarsjóðir aðstoða einstaklinga með að greiða niður kostnað af námsgjöldum. Þannig að í flestum tilfellum ættu námsgjöld ekki að vera hindrun.

 Er mikil þörf fyrir svona nám hér á Suðurnesjum?
Já, þörfin er fyrir hendi, erlendum ferðamönnum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og bendir margt til þess að búast megi við frekari aukningu, sbr. t.d. áform Reykjanesbæjar um víkingaþorp. Almennt leiðsögunám er kennt í Kópavogi og er þá verið að útskrifa leiðsögmenn fyrir allt landið. Svo eru haldin staðbundin leiðsögunámskeið víðsvegar um landið þar sem fólk sérhæfir sig í tilteknu landssvæði. Hér hefur ekki verið haldið slíkt námskeið síðan 1985 en þá útskrifuðust 7 manns. Helga Ingimundardóttir var ein af þeim sem tók leiðsöguprófið. Að hennar mati var námið nauðsynlegur grunnur að stofnun Ferðaþjónustu Suðurnesja og síðan hvalaskoðunar fyrirtækinu sem rekur bátinn Moby Dick.

Hvert eiga þeir sem hafa áhuga á þessu námi að snúa sér?
Á heimasíðu okkar, www.mss.is eru frekari upplýsingar sem áhugasamir geta kynnt sér. Einnig er hægt að hafa samband við okkur í síma 421-7500 eða koma til okkar á Skólaveg 1 sem fyrst.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024