Morgunverðarfundur hjá Íslandsbanka
S.l. fimmtudag hélt Íslandsbanki í Keflavík morgunverðarfund á Flughótelinu fyrir viðskiptavini og aðra áhugasama. Yfirskrift fundarins var "Efnahagshorfur og eignastýring í breyttu umhverfi". Una Steinsdóttir, útibússtjóri setti fundinn, en síðan fjallaði Ingólfur Bender hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka og fjallaði um helstu þætti í umhverfi íslenskra fyrirtækja og hvernig bankinn telur líklegt að þeir muni þróast næstu árin í ljósi væntanlegra stóriðjuframkvæmda á Austfjörðum.Í umfjöllun Ingólfs kom m.a. fram að álversframkvæmdir kæmu á mjög heppilegum tíma fyrir þjóðarbúið og þrátt fyrir gríðarlega stærð þess væri nægur tími til að bregðast við því með réttum hagstjórnaraðgerðum. Hann var m.a. spurður hvort hann héldi að þetta hefði áhrif á fyrirtæki hér á Suðurnesjum. Ingólfur taldi að það væri kannski erfitt að sjá beina tengingu, en margfeldisáhrifin væru mikil og hefðu áhrif á alla landsmenn og landshluta í mismiklum mæli þó. Það væri einnig mjög mikilvægt að hvert og eitt fyrirtæki athugaði vel hvort þarna væru einhver raunhæf tækifæri og gerði áætlanir í samræmi við það. Jóhann Ómarsson forstöðumaður hjá Eignastýringu Íslandsbanka talaði síðan um breytt umhverfi á verðbréfamörkuðum og þróun hlutabréfa almennt. Jóhann lagði mikla áherslu á að hlutabréf væru í eðli sínu langtímafjárfesting og að menn ættu að forðast að kúvenda um fjárfestingastefnu þrátt fyrir tímabundna niðursveiflu. Það væri einfaldlega eðli hlutabréfamarkaða að sveiflast mikið. Góð þátttaka var á fundinum og spunnust líflegar og skemmtilegar umræður um umfjöllunarefni fundarins.