Miklir möguleikar í frekari þróun líftækniklasa á Ásbrú
– Algalíf þrefaldar verksmiðju sína og hefur mikla stækkunarmöguleika
„Við sjáum töluverða aukningu í eftirspurn eftir fasteignum á Ásbrú. Fasteignamarkaðurinn hér er lengur í gang en á höfuðborgarsvæðinu og við sjáum að það er að byrja ákveðinn þrýstingur. Við höfum horft til þess að bjóða fólki og fyrirtækjum aðstöðu sem þeim stendur jafnvel ekki til boða á höfuðborgarsvæðinu. Þar höfum við m.a. horft til líftæknifyrirtækja sem þurfa mikið pláss, hvort sem þau eru í einhverri ræktun eða annarri framleiðslu. Líftæknismiðja Algalíf er gott dæmi um það. Nú er einmitt verið að undirbúa þreföldun á þeirri verksmiðju sem þeir fóru af stað með, þannig að það er gríðarleg stækkun og allt að ganga samkvæmt þeirri áætlun sem þeir lögðu upp með,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.
Líftæknismiðja Algalíf er að stækka innan veggja þeirra 4500 fermetra af húsnæði sem fyrirtækið leigir af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, KADECO. Kjartan segir að Algalíf hafi mikla möguleika til stækkunar og byggingaland fyrir allt að 20.000 fermetra húsnæði sem er við hlið núverandi aðstöðu fyrirtækisins.
„Við sjáum mikla möguleika í þessari starfsemi og frekari þróun líftækniklasa hér á Ásbrú og í nálægðinni við flugvöllinn. Þar horfum við til þess að fyrirtækin eru að flytja þekkingu inn og út úr landinu ásamt afurðum og hráefni. Við höfum kortlagt þetta á undanförnum árum og erum í dag í viðræðum við nokkur önnur sambærileg fyrirtæki um að staðsetja sig hér. Við sjáum ákveðin tækifæri í því að byggja upp líftækniklasa hér á komandi árum,“ segir Kjartan.
Laða að tæknifyrirtæki
Fókus Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, KADECO, hefur frá fyrsta degi verið á tæknitengda uppbyggingu á Ásbrú og markmiðið sé að laða að tæknifyrirtæki sem sjái virði í staðsetningu við alþjóðaflugvöllinn og þeim grundvelli sem skapaður hefur verið á undanförnum árum.
„Fyrsta þróunarverkefni okkar var Keilir og honum var ætlað að vera ákveðinn grundvöllur undir þá atvinnuþróun sem ætti sér stað. Það hefur algjörlega gengið eftir og við sjáum að þau fyrirtæki sem koma, Algalíf og fleiri, gera samninga við Keili um nýtingu á aðstöðu og aðgang að þekkingu. Þau koma með nemendaverkefni inn í skólann, nýta nemendur og veita þeim jafnframt tækifæri til raunhæfra og ögrandi verkefna.
Við erum einnig að sjá nemendur sem útskrifast úr tæknifræðináminu koma sér fyrir á svæðinu. Við erum sérstaklega að huga að því að bjóða þeim ákveðinn grundvöll hér, þannig að þeir geti í framhaldi þróað sína þekkingu, fengið vinnu hjá fyrirtækjum á svæðinu eða stofnað sín eigin og unnið t.a.m. í frumkvöðlasetrinu í Eldey eða annarri aðstöðu sem við getum útvegað. Við horfum á gríðarleg tækifæri til lengri tíma litið í uppbyggingu á tæknitengdri atvinnustarfsemi,“ segir Kjartan Þór.
Ólíkt því sem margir halda að fyrirtæki í ákveðinni starfsemi vilji ekki fá önnur sambærileg nálægt sér, þá er það misskilningur. Þau vilja í nær öllum tilfellum fá fleiri sambærileg fyrirtæki á svæðið. Eitt af sjónarmiðunum er að það dregur að stærri hóp starfmanna og starfsöryggi verður meira. Ef starfsmenn finna sig ekki í starfi hjá einu fyrirtæki, getur það átt möguleika á því hjá öðru í sambærilegri starfsemi á svæðinu. Það heldur fyrirtækjum líka á tánum að gera eitthvað spennandi og að laða til sín fólk. Við höfum einmitt heyrt það hjá fyrirtækjum hér á Ásbrú að þau vilja að það sé samkeppni um starfsfólkið, að það geti deilt þekkingu sinni með öðrum og að það sé að starfa hjá fyrirtækjum vegna þess að það hafi virkilegan áhuga á viðfangsefninu. „Það versta sem þú getur gert vísindamanni er að hann hafi ekki örvun til að takast á við viðfangsefnið“.
- Fyrirtæki eins og Algalíf er með mörg sérhæfð störf sem jafnvel krefjast mikillar menntunar. Er þetta fólk að setjast að hér á svæðinu?
„Já, að einhverjum hluta. Við sjáum að svona verkefni mun taka einhver ár. Það er mikil ákvörðun að taka upp fjölskylduna og flytja inn á eitthvað ákveðið svæði og hefur mikið að gera með starfsöryggi. Það er því skiljanlegt að fólk taki ekki þau skref strax. Við sjáum það að á 5-10 árum þegar fyrirtækin eru orðin sterkari og fleiri á svæðinu, þá muni fólk taka þá ákvörðun að flytja inn á svæðið og festa rætur hér í auknu mæli. Það er nokkur fjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem hér starfa búinn að koma sér og sínum fyrir á svæðinu“.
- Þið bjóðið fyrirtækjum sem setjast að hér á Ásbrú góð búsetuúrræði fyrir starfsfólk.
„Það er eitt af því sem við horfum til, að skapa nýja eftirspurn eftir íbúðum á svæðinu. Aukin atvinnustarfsemi hér á Ásbrú hefur áhrif á íbúðamarkaðinn á svæðinu öllu. Við finnum fyrir auknum áhuga fyrirtækja á að koma á Ásbrú til að nýta atvinnueignir og okkur hefur gengið vel að koma iðnaðartengdum eignum í not. Það er einnig mikil ásókn í þjónustuhúsnæði ýmis konar. Samhliða því finnum við aukna eftirspurn eftir nýtingu á íbúðum á svæðinu. Þrátt fyrir erfiða tíma á landinu hefur verið töluverður vöxtur á þessu svæði í atvinnustarfsemi og þjónustu“.
(Frétt úr blaðauka um Ásbrú sem fylgdi Víkurfréttum 13. maí 2015)