Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 26. apríl 2001 kl. 12:00

Miklar endurbætur á Hótel Keflavík- 10 svítur eftir breytingar.

Miklar endurbætur og viðhald hefur farið fram á Hótel Keflavík á síðustu mánuðum. Búið er að taka öll 32 herbergin í elstu álmu hótelsins algjörlega í gegn, skipta um rafmagn, veggfóðra, setja upp myndir og endurnýja hluta af húsgögnum.
Að sögn Steinþórs Jónssonar, hótelstjóra nema endurbæturnar í þessum áfanga nálægt öðrum tug milljóna en stefnt er að ljúka framkvæmdunum fyrir 17. maí n.k. en þá fagnar hótelið 15 ára afmæli sínu. “Við bjóðum upp á ýmiskonar þjónustu sem ekki er að finna á öðrum hótelum á Íslandi en á öllum herbergjum er að finna geislaspilara, peningaskáp, buxnapressu, grill, hárþurrku og margt fleira.” segir Steinþór, “en allri þessari tækni fylgir auðvitað viðhald. Nútímagesturinn vil einfaldlega gæði og aukna þjónustu en kröfur viðskiptavina okkar aukast með hverju ári.”
Ólíkt festum hótelum hefur Hótel Keflavík tekið góðan tíma í að fullkomna þjónustuna og áhersla lögð á að viðhalda hlutum dag frá degi og gera hótelið betra í dag en í gær. “Við erum með tvo menn í föstu viðhaldi allt árið og undanfarin tvö ár höfum við haft smið sem sér alfarið um endurbætur á hótelinu. Í rekstaráætlun hótela vil stærsti rekstrarliðurinn oft gleymast þ.e. viðhald og nauðsynlegar endurbætur þannig að annars góð hótel eiga það til að drabbast niður með árunum. Þannig viljum við ekki hafa hlutina á Hótel Keflavík.” segir Steinþór og leggur mikla áherslu á orð sín.
Þegar breytingum verður lokið getur hótelið boðið gestum sínum upp á 10 svítur, þar af fimm stórar tveggja herbergja með setustofu og nuddbaðkörum. Ráðstefnur og fundir hafa aukist mikið á Hótel Keflavík en fyrir tveimur árum var ráðinn ráðstefnustjóri til hótelsins og sér hann um alla þætti heimsóknarinnar fyrir hópinn s.s. veitingar, ferðir og skemmtanir hjá hinum ýmsum ferðaþjónustuaðilum hér í svæðinu.
Hótel Keflavík er fjögurra stjörnu hótel með 75 herbergi auk 7 herbergja á gistiheimili hótelsins. “Það verður vissulega gaman að horfa tilbaka á afmælinu okkar, 17. maí, og sjá hvað hótelið, sem fáir höfðu trú á í upphafi, hefur vaxið og dafnað á þessum árum”, sagði Steinþór Jónsson, hótelstjóri að lokum. Víkurfréttir munu af sjálfsögðu mæta 17. maí og taka myndir af öllum breytingunum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024