Mikilvægt að stilla saman strengina
-segir Arnar Hreinsson, útibússtjóri Landsbankans á Suðurnesjum
„Staðan á Suðurnesjum er mjög góð, næg atvinna er í boði og vöxtur á flestum sviðum hefur verið mikill og mun verða áfram. Það er ánægjulegt en einnig áskorun og mikilvægt að aðilar í framlínu svæðisins stilli saman strengina til framtíðar litið,“ segir Arnar Hreinsson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ en hann tók við starfinu fyrir rúmu ári síðan.
Landsbankinn kynnti í síðustu viku á fundi á Park-Inn hótelinu í Reykjanesbæ nýja þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar bankans til næstu þriggja ára. Farið var yfir stöðu ferðaþjónustunnar og fjallað var um áhrif fasteignaverðs á stöðugleikann. Þá kynnti Rúnar Fossdal Árnason, forstöðumaður hjá Keili flugakademíu, upphaf, vöxt og framtíðarhorfur hjá félaginu.
Í spá bankans segir að toppi hagsveiflunnar sé náð en uppsveiflan muni þó lifa lengur á Suðurnesjum vegna mikils uppgangs ferðaþjónustunnar í tengslum við áframhaldandi aukningu umferðar um Keflavíkurflugvöll og framkvæmdir tengdar stækkun hans.
Mikill vöxtur á svæðinu og aukning útána til fasteignakaupa
Arnar segir að bankinn hafi fundið fyrir betri stöðu hjá fólki að undanförnu og að mikill vöxtur hafi verið í útlánum bankans tengdum íbúðakaupum á Suðurnesjum. „Þetta hefur gerst hratt á síðustu árum en húsnæðisverð hefur hækkað mikið að undanförnu. Svæðið var aðeins lengur að taka við sér hvað það varðar en nú er staðan þannig að við blasir húsnæðisskortur.“ Þá sé verð margra eigna á Suðurnesjum komið í námunda við íbúðir á stór höfuðborgarsvæðinu.
„Íbúafjölgun hefur hvergi verið meiri og þrátt fyrir að framboð íbúðahúsnæðis hafi verið mikið fyrir nokkrum árum þá er ljóst að það er allt komið í notkun og eftirspurn verður mikil á næstunni. Verktakar hafa tekið við sér og von er á fjölda nýrra íbúða á markaðinn á næstu árum.“
Arnar segir að ekki sé hægt að fullyrða neitt um hvort hækkanir haldi áfram eða það hægist á þeim þegar framboð húsnæðis eykst. „Við finnum fyrir aukinni bjartsýni samhliða auknum kaupmætti. Staðan hjá almenningi hefur ekki verið betri síðan fyrir bankahrun. Fólk er þó með varann á í ákvörðunum sínum og sama má segja um eigendur fyrirtækja. Við finnum fyrir því að fólk vill vanda sig. Afleiðingar bankahrunsins sitja enn í mörgum og því fara lang flestir varlegar núna.“
Hátt þjónustustig og gott íþrótta- og félagsstarf
Margir nýrra íbúa á svæðinu eru ánægðir með hátt þjónustustig sveitarfélaganna og gott íþrótta- og menningarstarf. „Ég bý ekki á svæðinu en ég eins og margir aðrir sjáum að þessir hlutir eru í mjög góðum farvegi og það skiptir miklu máli þegar fólk tekur ákvörðun um að flytja til Suðurnesja. Þetta eru þættir sem fólk skoðar mjög vel þegar það flytur um set og það er ánægjulegt hvað þeir eru góðir.“
Arnar nefnir möguleika svæðisins sem séu mjög miklir. „Möguleikar Suðurnesja eru gríðarlegir til framtíðar litið þar sem ferðaþjónustan mun áfram verða lykil atvinnugrein Íslendinga. Því er mikilvægt að aðilar í þessum málum vinni saman. Svæðið er í raun ekki í samkeppni við önnur landsvæði hér heldur við umheiminn. Hvernig næst að standa að uppbyggingu Keflavíkurflugvallar til framtíðar mun hafa mikil áhrif. Þar skiptir máli að sveitarfélögin séu í góðri samvinnu hvað varðar skipulag og fleiri þætti sem lúta að þeim.“
Rúmlega fimm ár eru síðan Landsbankinn yfirtók Sparisjóðinn í Keflavík. Arnar segir að Sparisjóðurinn hafi spilað stórt hlutverk á Suðurnesjum. „Við þekkjum söguna og við leggjum okkur fram við að taka þátt í uppbyggingu svæðisins eins og við getum. Það er mikilvægt að sýna samfélagslega ábyrgð og við teljum okkur gera það á margvíslegan hátt, m.a. með styrkveitingum til íþrótta og menningar og lista. Það verða allir að sýna samfélagslega ábyrgð, við og aðrir aðilar í atvinnulífinu.“