Mikil verðmæti í starfsfólkinu
Optical Studio í Keflavík fagnar um þessar mundir 30 ára afmæli. Það var í maí 1982 sem gleraugnaverslunin opnaði og þá undir nafninu Gleraugnaverslun Keflavíkur. Síðan þá hefur verslunin vaxið hratt en fyrirtækið veitir í dag 38 manns vinnu. Þá státar fyrirtækið af því að vera rekið á sinni upprunalegu kennitölu en það eru ekki mörg fyrirtæki á Íslandi í dag sem geta státað af áratuga gamalli kennitölu.
Kjartan Kristjánsson er eigandi Optical Studio og hann sagði í samtali við Víkurfréttir að þegar hann kom til Suðurnesja fyrir 30 árum til að opna gleraugnaverslun hafi hann ekki áttað sig á því hvað í raun var mikið kjöt á beinunum hér suður með sjó. Á þessum tíma var Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli í fullu fjöri með öllum þeim fjölskyldum sem þar voru. Varnarliðsmenn urðu því fljótt stór viðskiptahópur verslunarinnar. Aðeins ári eftir að verslunin tók til starfa á Hafnargötunni var opnað útibú á varnarsvæðinu fyrir varnarliðsmenn sem starfaði þar til herinn fór af landinu.
Fljótlega urðu viðskipti gleraugnaverslunarinnar í herstöðinni allt að 50% viðskiptum verslunarinnar. Á þessum árum voru gengisfellingar einnig árlegur viðburður og segir Kjartan viðskiptin hafa verið blómleg.
Optical Studio hefur ávallt lagt upp með að bjóða upp á vandaða og góða vöru enda segir Kjartan að viðskiptavinurinn sé bæði meðvitað og ómeðvitað mjög kröfuharður á þá vöru sem hann er að kaupa og segir Kjartan að hann hafi alltaf haft það að leiðarljósi að vera með góða og fína vöru og hátt þjónustustig. Það verði hins vegar ekki til nema með góðu starfsfólki sem hafi brennandi áhuga á starfinu. Suðurnesjamenn taka efir því þegar þeir koma í verslun Optical Studio í Keflavík að þar eru sömu andlitin við afgreiðslu ár eftir ár og í raun áratugi því hjá fyrirtækinu er starfsfólk með yfir 20 ára starfsaldur og segir Kjartan mikil verðmæti liggja í því fyrir fyrirtækið hans. Þú komir ekki farsælu fyrirtæki á koppinn nema þar séu til staðar starfsmenn sem sýna starfinu áhuga og séu trúir starfinu.
Tíu árum eftir að gleraugnaverslunin var opnuð í Keflavík var stofnuð gleraugnaverslun í Mjódd í Reykjavík. Í framhaldinu var opnað á Selfossi og eftir það var opnuð verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 1998. Kjartan segir það hafa verið verulega spennandi enda hafi þar verið rennt blint í sjóinn. Íslendingar sem eru þekktir fyrir að nýta sér vel fríhafnarsvæðið í Leifsstöð til að versla nánast allt sem hugurinn girnist áttu þó ekki kost á því, fram að þessu, að geta keypt sér gleraugu á fríhafnarverði (án gjalda). Að kynna sér vöru og kosti hennar áður en lagt var af stað í flugstöðina var algengt og eðlilegt enda oft naumur tími til þess þegar í flugstöðina var komið. Fljótlega eftir að Optical Studio tók til starfa í FLE fór fólk að notfæra sér það að koma áður í verslanir okkar í bænum til að undirbúa kaup á gleraugum sem það fékk svo útbúin og afhent í flugstöðinni á leið úr landi. Þessi háttur eða hegðun var nokkuð sem í átatugi var búin að festa sig í sessi meðal landsmanna sem hugðu á ferð til útlanda, með snyrtivörur, raftæki, video og myndavélar svo dæmi séu tekin.
Strax í upphafi var þó komið upp þeirri þjónustu að fólk gat valið og fengið smíðuð gleraugu í verslun Optical Studio í Leifsstöð á 10-15 mínútum. Þar var Kjartan brautryðjandi í þeirri þjónustu með afgreiðslu á sérsmíðuðum gleraugum, auk þess að bjóða upp á sjónmælingar og linsumátanir. Ekki er vitað til þess að samskonar verslun og þónusta sem Optical Studio býður upp á sé að finna í flugstöðvum annarstaðar í heiminum. Því er hér um ,,einstaka verslun“ að ræða.
Optical Studio er í dag með verslanir við Hafnargötu í Keflavík, í Leifsstöð og í Smáralind í Kópavogi. Þá er einnig rekið innkaupafyrirtæki, Miðbaugur ehf, með aðsetur í Kópavogi. Optical Studio státar af góðum og þekktum gleraugnaumboðum svo sem Ray Ban, Oakley, Prada, Chanel, D&G og Lindberg svo dæmi séu tekin.
Í tilefni af 30 ára afmæli Optical Studio á þessu ári býður verslunin við Hafnargötu upp á 30% afslátt af allri vöru og þjónustu í tengslum við Ljósanótt. Aslátturinn gildir fimmtudag, föstudag og laugardag.
Verslun Optical Studio í Keflavík.