Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mikil hefð fyrir bílasölu á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 18. desember 2019 kl. 14:19

Mikil hefð fyrir bílasölu á Suðurnesjum

-segir Bjarki Már Viðarsson hjá Bílasölu Reykjaness sem er með umboð frá BL

„Það er mikil hefð fyrir bílasölu á Suðurnesjum þannig að ég get ekki annað en verið bjartsýnn, ekki síst með söluumboð frá BL, einu stærsta bílaumboði landsins,“ segir Bjarki Már Viðarsson eigandi nýstofnaðrar Bílasölu Reykjaness.

Nýja bílasalan er við Holtsgötu þar sem K.Steinarsson var áður til húsa. Njarðvíkingurinn Bjarki starfaði síðast hjá bílaleigu en hann hefur alla tíð haft mikinn áhuga á bílum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum með öll vörumerkin frá BL bílaumboðinu, Hyundai, Nissan, Renault, Isuzu, BMW, Dacia, Mini, Jaguar, Land Rover og Subaru. Allt þekkt bílamerki. Við erum líka tengdir bílasölu notaðra frá BL, Bílalandi, en þar eru mörg hundruð bíla á skrá. Bílaplanið okkar hér er því alls ekki tæmandi listi yfir bíla en stefnum að því að vera samt með eins mikið úrval notaðra á staðnum og hægt er og einnig nokkra nýja bíla í salnum,“ segir Bjarki sem segir að farið verði af stað með látum í janúar á nýju ári. 

„Janúar verður skemmtilegur mánuður en þá munum við frumsýna nýja bíla allar helgar frá Renault, Nissan, Subaru og Mini. Við munum kappkosta við að bjóða Suðurnesjamönnum upp á fyrsta flokks þjónustu þegar kemur að bílakaupum,“ sagði Bjarki Már.

Á neðri myndinni er hann að afhenda eigendum Sparra fyrsta bílinn sem hann seldi, Renault Traffic.