Viðskipti

  • Mikil fjölgun farþega yfir vetrartímann
  • Mikil fjölgun farþega yfir vetrartímann
Miðvikudagur 23. nóvember 2016 kl. 10:46

Mikil fjölgun farþega yfir vetrartímann

— Isavia kynnir farþegaspá fyrir árið 2017 á Keflavíkurflugvelli

Ný farþegaspá fyrir árið 2017 á Keflavíkurflugvelli sýnir að áframhald verður á miklum og jákvæðum vexti í farþegafjölda og er gert ráð fyrir að 8,75 milljónir farþega fari um flugvöllinn á næsta ári. Spáin var kynnt í morgun á fundi Isavia. Vöxturinn á bæði við um farþega til og frá landinu sem og skiptifarþega sem einungis millilenda hér á leið sinni yfir Atlantshafið.

„Ánægjulegustu teiknin sem sjást í spánni eru þau að það átak sem ferðaþjónustan í heild hefur farið í við að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann hefur skilað miklum árangri. Þar hefur Isavia lagt sitt af mörkum með hvatakerfi sem veitir flugfélögum sem hefja nýjar heilsársflugleiðir afslátt af lendingargjöldum. Með þessari dreifingu yfir árið fæst mun betri nýting á innviðum og á það jafnt við um Keflavíkurflugvöll og alla aðra innviði, hvort sem um vegi, gistirými eða hverja aðra þjónustu er að ræða. Þetta er því lykilatriði í að gera ferðaþjónustuna að heilsársatvinnugrein,“ segir í tilkynningu frá Isavia eftir fundinn.

Sem dæmi um þessa minnkun árstíðarsveiflunnar gerir spáin ráð fyrir því að brottfararfarþegum fjölgi um tæplega 70 þúsund milli ára í janúar 2017 miðað við 2016, en fjölgunin verði rúmlega 30 þúsund farþegar í hverjum stærstu sumarmánaðanna. Á fundinum var farið yfir þróunina frá árinu 2010, en á því ári komu 50% erlendra ferðamanna yfir hásumarið (júní til ágúst) og 23% yfir vetrartímann, (janúar til mars, nóvember og desember). Árið 2017 verður þetta hlutfall vetrinum í vil, en þá er gert ráð fyrir að 35% erlendra ferðamanna komi yfir vetrarmánuðina og 33% yfir hásumarið.

Í spánni kemur einnig fram að umferð farþega dreifist betur yfir sólarhringinn, en með því fæst enn betri nýting mannvirkjanna á Keflavíkurflugvelli. Þessi aukna nýting á mannvirkjum skiptir sköpum, því þótt framkvæmdir frá og með árinu 2012 og út árið 2017 verði samtals fyrir um 43 milljarða á Keflavíkurflugvelli þarf meira til og nú eru stórframkvæmdir í undirbúningi á flugvellinum. Nokkur ár munu líða áður en þær miklu stækkanir sem unnið er að verða teknar að fullu í notkun og því er ljóst að frekari aukning mun ekki verða á mestu álagstímum sólarhringsins. Því er mjög skynsamlegt fyrir rekstur Keflavíkurflugvallar að dreifa umferðinni betur yfir árið og sólarhringinn, því með betri nýtingu núverandi mannvirkja aukast tekjur af starfseminni, sem nýtast beint til uppbyggingar flugvallarins.

Íslendingar aldrei ferðast jafnmikið

Í farþegaspá fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir 7,4% aukningu íslenskra ferðamanna milli ára en þær tölur eru byggðar á upplýsingum sem fengnar hafa verið frá stærstu notendum Keflavíkurflugvallar. Gangi sú spá eftir mun heildarfjöldi íslenskra brottfararfarþega verða um 563 þúsund. Íslendingar hafa aldrei ferðast jafnmikið, en metið frá árinu 2007 verður slegið í ár og, ef spáin fyrir 2017 rætist verður það aftur slegið árið 2017. Þrátt fyrir þetta met verða Íslendingar einungis um 20% þeirra farþega sem ferðast um Keflavíkurflugvöll til og frá Íslandi.

28,3% fjölgun – skiptifarþegum fjölgar mikið

Samkvæmt farþegaspá Isavia mun farþegahreyfingum ársins 2017 fjölga um 28,3% á milli ára og verða eins og áður segir 8,75 milljónir. Allt stefnir í að árið 2016 muni enda í 6,8 milljónum farþega sem er 40,3% fjölgun frá fyrra ári. Þó prósentuaukningin sé mun minni árið 2017 en 2016 er um nánast sömu aukningu í farþegafjölda að ræða, eða um tvær milljónir á milli ára. Það er einmitt sá fjöldi sem fór um Keflavíkurflugvöll allt árið 2010, svo ljóst er að fjölgunin hefur verið hröð. Skipting farþega hefur undanfarin ár skipst nokkuð jafnt í þrjá hluta, komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega, sem einungis millilenda á flugvellinum. Breyting verður á því nú en árið 2017 verða skiptifarþegar í fyrsta sinn fleiri en komu- eða brottfararfarþegar. Skiptifarþegar verða um 3,1 milljón, komufarþegar um 2,8 milljónir og brottfararfarþegar einnig.

Framkvæmd farþegaspár

Isavia vinnur farþegaspá fyrir Keflavíkurflugvöll í lok hvers árs. Spáin er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér auk þess sem mjög gott samstarf er við helstu félögin um upplýsingar um vænt sætaframboð.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia: „Ánægjulegasta breytingin sem við sjáum er að fjölgunin er langmest yfir vetrarmánuðina. Þetta er afraksturs markviss markaðsstarfs og styrkir rekstrargrundvöll allrar ferðaþjónustunnar gríðarlega og hefur gert hana að heilsársatvinnugrein.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024