Methagnaður Sparisjóðsins
Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á fyrstu sex mánuðum ársins nam tæpum 1.219 m. kr. fyrir skatta. Hagnaður eftir skatta var tæplega 1.036 m.kr. sem er aukning upp á 106,6% frá sama tímabili árið áður. Þetta er mesti hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á einum árshelmingi og er arðsemi eiginfjár 55% sem er ein sú mesta frá stofnun sjóðsins.
Helstu niðurstöður úr rekstri og efnahag
Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2006 nam 1.218,8 m.kr. króna fyrir skatta samanborið við 610,1 m. kr. á sama tímabili 2005. Hagnaður eftir skatta nam 1.035,8 m. kr. samanborið við 501,4 m. kr. á sama tímabili árið áður. Þá var arðsemi eigin fjár 55% en var 37,4% fyrir sama tímabil 2005.
Vaxtatekjur Sparisjóðsins námu á tímabilinu 2.772,6 m.kr. en það er 124% hækkun frá sama tímabili árið áður. Vaxtagjöld hækkuðu um 214% á tímabilinu og námu 2.379,2 m.kr en hreinar vaxtatekjur námu 393,4 m.kr. samanborið við 480,0 m.kr. á sama tímabili árið áður.
Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var 2,3% á tímabilinu en 3,52% á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur jukust um 749,7 m. kr. og voru 1.467,5 m.kr. á tímabilinu. Munar þar mest um tekjur af hlutabréfum og öðrum eignarhlutum en aukningin þar er upp á 430,9 m.kr. frá sama tímabili árið áður.
Önnur rekstrargjöld námu alls 520,0 m.kr. og jukust um 19,3% frá sama tímabili árið áður. Laun og launatengd gjöld jukust um 15,6% og annar almennur rekstrarkostnaður jókst um 24,8%. Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 27,9% á móti 36,4% á sama tíma árið áður. Framlag í afskriftareikning útlána var 122,1 m.kr. en var 151,7 m.kr. á sama tímabili árið áður. Sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings var framlagið 0,32% en var 0,48% á sama tímabili árið áður.
Heildarinnlán í Sparisjóðnum ásamt lántöku námu í lok júní 29.415,8 m.kr. og er aukningin því 18,0% á tímabilinu. Útlán Sparisjóðsins ásamt markaðsskuldabréfum námu 30.353 m.kr. í lok júní 2006 og höfðu aukist um 4.736,0 m.kr. eða um 18,5% á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Í lok tímabilsins var niðurstöðutala efnahagsreiknings 37.963 m.kr. og hafði hún hækkað um 6.186 m.kr. eða 19,5% á tímabilinu. Eigið fé Sparisjóðsins í lok júní nam 4.662 m.kr. og hefur eigið fé aukist um 898,6 m.kr. eða 23,9%. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum er 10,45% en var 11,97% á sama tíma árið áður.
Áætlanir benda til að afkoman verði góð á árinu 2006. Í lok tímabilsins var stofnfé 600 milljónir og voru stofnfjáraðilar 556 talsins.
Þann 5. mars keypti Sparisjóðurinn rekstur og eignir Landsbanka Íslands í Sandgerði og skuldir sem voru yfirteknar við kaupin eru hluti af árshlutauppgjöri 30. júní 2006. Með kaupunum er Sparisjóðurinn kominn með afgreiðslur í alla þéttbýliskjarna á Suðurnesjum. Afgreiðslurnar eru því orðnar 6 talsins og eru staðsettar í Keflavík, Njarðvík, Garði, Grindavík, Vogum og Sandgerði. Höfuðstöðvar Sparisjóðsins eru í Keflavík og þar er Viðskiptastofa SPKEF einnig til húsa og eru starfsmenn Sparisjóðsins um 91 talsins.