Metanólverksmiðja þrefaldast að stærð
Metanólverksmiðja Carbon Recycling í Svartsengi verður þrefalt stærri innan nokkurra vikna. Skipulagsstofnun hefur samþykkt matsáætlun fyrir framkvæmdina. Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar fyrirtækisins segir þetta nauðsynlegt skref, en stefnt er að því að þrefalda framleiðsluna eftir nokkrar vikur. RÚV greinir frá.
Verksmiðjan hóf framleiðslu fyrir tveimur árum. Notaður er koltvísýringur úr útblæstri virkjunar HS Orku í Svartsengi, og vetni sem er búið til þegar vatn er klofið með rafgreiningu. Þessu er blandað saman og búið til metanól, sem bæði er notað í framleiðslu á lísdísel og sem íblöndunarefni í bensín. Skipulagsstofnun hefur nú samþykkt tillögu Carbon Recycling að matsáætlun fyrir stækkun verksmiðjunnar, með smávægilegum athugasemdum.
Benedikt Stefánsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu segir þetta skref nauðsynlegt til að áætlanir fyrirtækisins um að stækka verksmiðjuna verði að veruleika.
„Hún hefur starfað með því sniði að við höfum getað framleitt 1300 tonn á ári,. Nú erum við búin að bæta við framleiðslugetuna þannig að hún er þrefölduð og við förum í gang eftir nokkrar vikur með nýja verksmiðju," segir hann.
Þetta þýðir að framleiðslan verður um fjögur þúsund tonn á ári. Benedikt segir að eldsneytið hafi bæði verið selt hér innanlands og utan og vonast hann til að salan aukist til muna á þessu ári. Framleiðslan auki framboð á innlendu eldsneyti, sem nýtist vel í lífdíselframleiðslu.
„Svo höfum við líka þá möguleika á því að nota íslensk eldsneyti til íblöndunar í bensín," segir Benedikt. „Annað eldsneyti sem blandað er í bensín er venjulega framleitt úr korni eða hveiti, en hér erum við eingöngu að nota koltvísýring sem annars yrði sleppt út í andrúmsloftið og raforku til að framleiða vetni."
Hann bætir við að fyrirtækið hafi möguleika á að byggja aðra verksmiðju við hlið þessarar, sem gæti framleitt fjörutíu þúsund tonn á ári. Það fari þó eftir markaðsaðstæðum hvort af því verði.