Matfiskeldi hefst við Reykjanesvirkjun síðar í sumar
Matfiskeldi á flatfiskinum Senegalflúru er að hefjast síðar í sumar í eldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Í fyrsta áfanga, sem mun gefa af sér fisk í markaðsstærð á næsta ári, er gert ráð fyrir 500 tonna framleiðslu. Stöðin verður þá sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, en nú skilar heildareldi á þessari flúru undir 500 tonnum á ári. Í næsta áfanga starfseminnar verða afköstin aukin í um 2.000 tonn á ári, en áætlað er að hann verði að fullu kominn í gagnið 2017. Stolt Sea Farm er þegar stærsti framleiðandi á Senegalflúru í heiminum og rekur tvær eldisstöðvar, aðra í Frakklandi og hina á Spáni. Framleiðsla þeirra nú er 300 til 350 tonn á ári.
Þetta kemur fram í spjalli við Pál Þorbjörnsson, fiskeldisfræðing, sem mun stýra eldinu þegar það hefst í sumar. Viðtalið er birt á vefnum Kvótinn.is, sem er nýr vefur um sjávarútveg og fiskvinnslu. Þá verða fluttar inn lirfur úr klakstöð Stolt Sea á Spáni og fiskurinn alinn í markaðsstærð, sem er um 350 grömm. Henni verður náð á næsta ári. Páll segir að flúran sé góður matfiskur, nokkuð lík sólkola. Hún sé matreidd í heilu lagi með roði og beinum og einn fiskur sé hæfilegur skammtur á mann. Hann vill ekki nefna hvert markaðsverð á flúrunni sé, enda sveiflist það eftir framboði og eftirspurn. Þó þetta sé mikil aukning á eldi, eða um tvöföldun á heimsframboði, sé einnig töluvert framboð úr veiðum og áhrif á markaðinn því ekki eins mikil og í fyrstu mætti ætla. Þá sé markaður fyrir flatfiska af þessu tagi góður, einkum í sunnanverðri Evrópu, en fiskurinn mun fara á markað í Frakkland, Spáni og Portúgal. Markaðsverð á Senegalflúru er heldur hærra en á sandhverfu sem er eftirsóttur flatfiskur.
Nánar hér!