Markmið okkar að Helguvík njóti sanngirni og jafnræðis
Fjármálaráðherra hefur boðað bæjarstjórann í Reykjanesbæ til fundar um fjáhagslega aðkomu ríkisins að Helguvíkurhöfn.
„Við viljum styðja við atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Það er markmið okkar að fullrar sanngirni og jafnræðis sé gætt og þess vegna hefur fjármálaráðherra kallað bæjarstjórann í Reykjanesbæ til fundar um hafnamálin í Helguvík,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinar.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sendi erindi til Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þann 19. febrúar sl. og afrit til þingmanna í Suðurkjördæmi og bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ. Þar er óskað eftir viðræðum um sambærilega samninga og frumvörp fyrir iðnaðaruppbyggingu í Helguvík og gerð hafa verið og eru í undirbúningi vegna áforma um uppbyggingu Kísilvers á Bakka.
Í erindi Árna Sigfússonar til Steingríms J. Sigfússonar segir: „Það eru ánægjuleg tíðindi að vel sé stutt við bakið á þeim sem huga að atvinnuuppbyggingu vegna Kísilvers á Bakka og ekki að efa að sami vilji stjórnvalda gildi um þær framkvæmdir sem unnið hefur verið að s.l. 5 ár í Helguvík og tengjast bæði álveri og kísilveri“.