Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Markmið okkar að Helguvík njóti sanngirni og jafnræðis
Fimmtudagur 28. febrúar 2013 kl. 17:29

Markmið okkar að Helguvík njóti sanngirni og jafnræðis

Fjármálaráðherra hefur boðað bæjarstjórann í Reykjanesbæ til fundar um fjáhagslega aðkomu ríkisins að Helguvíkurhöfn.

„Við viljum styðja við atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Það er markmið okkar að fullrar sanngirni og jafnræðis sé gætt og þess vegna hefur fjármálaráðherra kallað bæjarstjórann í Reykjanesbæ til fundar um hafnamálin í Helguvík,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinar.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sendi erindi til Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þann 19. febrúar sl. og afrit til þingmanna í Suðurkjördæmi og bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ. Þar er óskað eftir viðræðum um sambærilega samninga og frumvörp fyrir iðnaðaruppbyggingu í Helguvík og gerð hafa verið og eru í undirbúningi vegna áforma um uppbyggingu Kísilvers á Bakka.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Í samningum um framkvæmdir á Bakka sem undirritaðir voru nýlega er m.a. gert ráð fyrir fjárhagslegri aðkomu ríkisins að hafnaruppbyggingu við Bakka. Suðurnesjamenn hafa oft bent á að ekki hafi tekist að fá þann fjárhagslega stuðning við Helguvíkurhöfn sem aðrar hafnir hafa fengið frá ríkisvaldinu. Árni Páll segir að það sé enginn vafi á því að litið sé til Helguvíkur á sama hátt.
 
„Við viljum fá bæjarstjóra Reykjanesbæjar að samningaborðinu þó svo að formlegt erindi hafi ekki borist til ráðherra. Við viljum fara yfir málin með hliðsjón af þeirri útfærslu sem notuð var varðandi Bakka. Vilji okkar er skýr í þessu efni og við viljum þess vegna ræða málin svo allrar sanngirni sé gætt. Uppbygging í Helguvík er mikilvægt verkefni fyrir Suðurnesjamenn. Hafnamálin eru einn þáttur í því dæmi“.

Í erindi Árna Sigfússonar til Steingríms J. Sigfússonar segir: „Það eru ánægjuleg tíðindi að vel sé stutt við bakið á þeim sem huga að atvinnuuppbyggingu vegna Kísilvers á Bakka og ekki að efa að sami vilji stjórnvalda gildi um þær framkvæmdir sem unnið hefur verið að s.l. 5 ár í Helguvík og tengjast bæði álveri og kísilveri“.