Marion sinnir herrum á öllum aldri
Ný herrafataverslun í Reykjanesbæ hefur fengið mjög góðar viðtökur
„Við erum mjög þakklát fyrir viðtökurnar, þetta hefur farið fram úr okkar væntingum og við hlökkum til að þjónusta herrana á Suðurnesjum í framtíðinni,“ segja þau María Ósk Guðmundsdóttir og Helgi Grétar Gunnarsson en þau opnuðu herrafataverslunina Marion fyrir ári síðan í Hólmgarði í Reykjanesbæ.
María var nýbúin í fæðingarorlofi og að klára nám við Keili, hafði verið að vinna hjá Icelandair og ræddi við Helga hvort þau ættu að skella sér út í rekstur. Helgi er frá Akranesi og vanur herrafataverslun þar en hann og María, sem er frá Keflavík, voru sammála um að slíka búð vantaði í Reykjanesbæ og létu slag standa. Viðbrögðin hafa verið góð og vöruúrvalið hefur aukist frá því að búðin opnaði.
Engin herrafataverslun á svæðinu
María kom inn á hvað varð til þess að þau létu slag standa. „Við höfðum verið að velta fyrir okkur hvort við ættum að fara út í sjálfstæðan rekstur og fljótlega kom hugmyndin að því að opna herrafataverslun. Engin slík búð hefur verið í Reykjanesbæ í mörg ár og við þurftum að fara til Reykjavíkur til að kaupa föt á Helga, því fannst okkur þetta kjörið.
Við höfum verið með tvo birgja en erum að bæta við og þ.a.l. merkjum, svo förum við líka tvisvar sinnum á ári til útlanda á sýningar, mest í Kaupmannahöfn. Við höfðum hvorugt unnið í fataverslun en hugmyndin fæddist, varð að veruleika og hér erum við í dag, búin að reka búðina í rúmt ár og hún hefur bara vaxið og dafnað. Það er gaman að rifja upp þegar við opnuðum fyrir ári, þá var vöruúrvalið ekki mikið og við þurftum að hafa bil á milli herðatrjáa á fataslánum til að láta líta út fyrir að við værum með nægt vöruúrval en í dag er okkur nánast farið að vanta meira pláss,“ segir María.
Fatnaður fyrir alla aldurshópa
Helgi lýsti því hvernig óskir kúnnans hafa orðið til þess að auka við vöruúrvalið og herrar á öllum aldrei geta fundið eitthvað við hæfi. „Við erum opin fyrir öllum hugmyndum og höfum bætt við vörum eftir að hafa fengið hugmyndir frá viðskiptavinum. Þegar fermingarnar gengu í garð í vor þurftum við t.d. að bæta mikið við vöruúrvalið fyrir ungu herramennina en við tökum eftir því þegar eitthvað er framundan, þorrablót t.d. að þá eykst áhuginn og við reynum að sinna því eins vel og við getum. Við erum mjög ánægð með staðsetninguna, það er gott að vera í Hólmgarði og mikill erill oft á tíðum,“ sagði Helgi að lokum.