Magnús einn á Réttinum - purusteikin vinsælust
Haraldur Helgason, matreiðslumaður og annar eigandi matsölustaðarins Réttarins í Keflavík hefur selt hlut sinn í fyrirtækinu til Magnúsar Þórissonar en þeir hafa rekið staðinn í tæp tvö ár við Hafnargötu 51 þar sem Áfengisverslunin var síðast til húsa. „Ég fékk flott pláss á frystitogara hjá góðri útgerð og gat ekki sleppt því enda er ég með sjómannsblóð í æðum,“ sagði Haraldur við Víkurfréttir.
Þeir Haraldur og Magnús hafa starfað saman í veitingageiranum í tæpan áratug á Suðurnesjum og báðir lærðu þeir iðnina hér á svæðinu hjá sitt hvorum veitingamanninum. Kokkalærdómur félaganna hófst fyrir tuttugu og fimm árum. Þeim var varla farið að vaxa grön þegar þeir byrjuðu að höndla sleifar og önnur eldhúsáhöld.
Purusteikin vinsælust á Réttinum
Þessi hugmynd þeirra að opna veitingastað með heimilismat hefur gengið vel og ljóst að hugmyndafræðin gekk upp. „Við bjóðum upp á góðan heimilismat á sanngjörnu verði. Greitt er eftir vigt og fólk getur valið úr nokkrum réttum sex daga vikunnar en auk þess erum við með nokkra rétti sem eru í boði alla daga. Þar á meðal er purusteik en hún er vinsælasti rétturinn á Réttinum,“ sögðu þeir félagar og bættu því við að einn viðskiptavinur þeirra hafi ekki borðað annað frá því staðurinn opnaði. Á hverjum degi! „Vinur mannsins hefur reynt að segja honum að fá sér líka eitthvað annað, kannski fisk af og til eða annað en það hefur ekki gengið. Hann vill bara purusteikina.
Oft glatt á hjalla
Eldri borgarar eru stærsti kúnnahópurinn á Réttinum. Margir koma á hverjum degi og meirihluti þeirra tekur matinn með sér heim og það á við um fleiri þó svo sjá megi fjölda manns setjast inn í hádeginu og borða. Þá er oft glatt á hjalla. Sögur ganga á milli manna. Menn í vinnugöllum og konur líka. Magnús segir að laugardagsopnun sé til reynslu og sé að sækja í sig veðrið. Þá er t.d. alltaf á boðstólum saltfiskur, grjónagrautur og „barbekjú“ svínarif.
Í brotsjó á Flæmska hattinum
Haraldur kveður nú félaga sinn fljótlega og heldur í túr í byrjun febrúar á frystitogara. Halli tók forskot á sæluna í lok síðasta árs en þá fór hann í fimmtíu daga túr með togaranum Brettingi. Halli fór með skipinu á Flæmska hattinn við Nýfundnaland til rækjuveiða og var matreiðslumaður í túrnum. Á ýmsu gekk á tæpum tveimur mánuðum, veiðin gekk ágætlega en í skítabrælu á heimleiðinni fékk skipið brotsjó á sig og fór á hliðina og allt sló út, vél og önnur tæki. „Ég kallaði í skipstjórann og spurði hvort ég mætti slá ofninum inn aftur. Hann sagðist nú hafa meiri áhyggjur af því að koma skipinu í gang á ný. Það gekk vel og ég hélt áfram að kokka kjúklinga í mannskapinn,“ segir Halli og hlær en viðurkennir að honum hafi brugðið sem og öðrum skipverjum. Hann segist hafa heillast af sjómennskunni og fékk í framhaldinu pláss á flaggskipi Nesfisks. Þar eru 27 karlar um borð og því verður nóg að gera hjá kokkinum en hvað er vinsælasti rétturinn á sjónum? „Togarasteikin er vinsælust en það er steikt súpukjöt. Svo er alltaf saltfiskur og grjónagrautur á laugardögum eins og á Réttinum í Keflavík,“ segir Halli.
Magnús sjóveikur í Herjólfi
Magnús dómari Þórisson dæmdi með íslensku dómarateymi á Anfield, heimavelli Liverpool í Evrópudeildinni í knattspyrnu í desember og hafði gaman af. Hann segir engar breytingar fyrirhugaðar á Réttinum þó Halli hverfi á braut og haldi á vit nýrra ævintýra. Áfram verði haldið að bjóða góðan heimilsmat. Þá er Rétturinn einnig með veisluþjónustu. En er eitthvað sjómannsblóð í Magnúsi? „Hann fór með Herjólfi til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn og varð drullu sjóveikur og það eru því litlar líkur á því að hann sé á leið á sjóinn,“ sagði Halli.
[email protected]
Efst eru Réttar-félagar, Magnús og Haraldur. Purusteikin á diski á miðjumynd en neðst sést yfir veitingasalinn á Réttinum. VF-myndir/pket.