Magnús Bjarni Baldursson ráðinn markaðsstjóri SpKef sparisjóðs
Spkef sparisjóður hefur gengið frá ráðningu markaðsstjóra en 36 aðilar sóttu um starfið.
Magnús var framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar-Mindshare eða frá 2002-2010 og byggði það félag upp frá stofnun þess. Áður starfaði hann sem rannsóknastjóri hjá PricewaterhouseCoopers og sá einnig um markaðsdeild PWC. Magnús hefur einnig starfað hjá Landmælingum Íslands, Borgarlækni, Landlækni, Slysavarnarráði og Iðnaðarráðuneyti, svo nokkuð sé nefnt.
Á starfstíma sínum hjá Auglýsingamiðlun-Mindshare hefur Magnús starfað við markaðsráðgjöf fyrir mörg stærstu fyrirtæki og merki hérlendis sem og við ýmis erlend verkefni, t.a.m. N1, Nóa-Síríus, Kelloggs, Ölgerðina, Reykjavíkurborg, Sparisjóðina, Íslandsbanka, Spron, Vodafone, Nettó-Samkaup, Innnes, Sterling, Iceland Express, Íslenska Getspá, Alvögen, Samfylkinguna, VG, Orkusöluna, 365 Miðla, Árvak, A4, BMW, Hyundai, Ásbjörn Ólafsson, Dominos, Heineken og mörg fleiri.
Á árunum 1988-2002 sinnti Magnús kennslu við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, m.a í aðferðafræði og lýðfræði. Frá árinu 2006 hefur Magnús einbeitt sér að kennslu í markaðsfræði og vörumerkjastjórnun.
Magnús hefur verið virkur í starfi Sambands íslenskra auglýsingastofa og sat í mörg ár í fjölmiðlanefndum sambandsins. Þá var hann formaður Sía 2007-2010 en sat þar á undan í stjórn sambandsins, eða frá 2004-2007. Þá hefur Magnús setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja hér á landi.
Að loknu stúdentsprófi frá M.R. lauk Magnús B.S. gráðu frá Háskóla Íslands 1986 og meistaragráðu frá York University í Toronto, Kanada 1988 í hagrænni aðferðafræði.
Magnús Bjarni Baldursson er kvæntur Sigríði Haraldsdóttur, sviðsstjóra hjá Landlæknisembættinu og eiga þau tvö börn.