Magnað bílaár hjá Kjartani
Rafmagnið er framtíðin í bílum og hleðslan verður þráðlaus. Stefnir að opnun nýrrar bílasölu
„Þetta ár er búið að vera magnað. Ég hef aldrei selt fleiri bíla,“ segir Kjartan Steinarsson, bílasali og eigandi K.Steinarsson bílasölunnar í Njarðvík. Kjartan hefur selt bíla í á þriðja áratug og byrjaði bílasöluferilinn á því að selja Toyotur á Bílasölu Brynleifs en nú renna fleiri Kia bílar úr af planinu hjá honum en hann gat órað fyrir.
„Þetta eru bara svo góðir bílar,“ segir hann og brosir þegar hann er spurður út í ástæðurnar fyrir rífandi sölu á KIA bílum en þeir eru orðnir ansi algengir á götunum á Suðurnesjum. Kjartan hefur rekið K.Steinarsson bílasöluna frá árinu 1999 en hann rak lengi vel bílasölu á Fitjum í Njarðvík þar sem hann var umboðsaðili fyrir Heklu umboðið.
Kjartan fór illa út úr bankahruninu þegar hann hamaðist á móti vindinum en ákvað að taka höggið sem af varð og nú er sá baggi að baki. „Já, þetta er búið að vera strembið en nú er það að baki og ég held áfram eins og ég hef gert undanfarin ár, að selja góða bíla,“ segir hann og vill ekki frekar ræða það mál.
Kjartan segir að bílasala undanfarinna ára sé ólík því sem gerðist í góðærinu á sínum tíma. Núna sé fólk miklu meðvitaðra um hvernig kaupin gangi á eyrinni. Kaupendur eru almennt að greiða miklu meira í bílunum og algengt sé að þeir greiði helminginn með peningum en fyrir hrun var algengt að stærsti hlutinn væri að láni.
Hluti af velgengninni má rekja til sölu til bílaleiga en undanfarin ár hafa einstaklingar og fyrirtæki verið að koma sterk inn. „Við erum að selja mest af KIA bílum en erum einnig með umboð frá Ösku sem er með Mercedes Benz og svo frá Suzuki umboðinu með samnefnda bíla. Við höfum náð ótrúlegum árangri með KIA bílana en þeir hafa höfðað til margra. Það er ekkert skrýtið því gæðin eru mikil og þeir eru vel útbúnir og á mjög góðu verði. Þá hefur sjö ára ábyrgð sitt að segja líka. Það eru margir sem horfa til þess,“ segir Kjartan en bætir því við að einnig hafi gengið vel með Suzuki og Benz.
Bílasalinn er með nýja drauma sem hann langar að sjá rætast. Hann er búinn að sækja um lóð undir nýtt hús hinum megin við veginn og á teikniborðinu er ný bílasala í skemmtilegri byggingu. Þar vill hann leggja áherslu á þjónustu við rafbíla sem hann telur að muni koma mun sterkari inn á næstu árum. Bílar sem komist 400–500 kílómetra séu á leið á markaðinn. Og Kjartan vill þjónusta þann hóp vel á nýjum stað. „Þú kemur til með að keyra á bílnum í hleðslu og hún verður auðvitað þráðlaus. Bara svipað og þú upplifir með símann. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni í þessum málum á næstunni,“ sagði Kjartan.