Lyfjaval opnar bílaapótek í Reykjanesbæ
Lyfsalinn ehf. hefur samið við Aðaltorg ehf. um byggingu nýs apóteks undir nafni Lyfjavals á reitnum við Courtyard by Marriott hótelið í Reykjanesbæ. Apótekið verður bílaapótek, auk þess sem þar verður hefðbundið apótek sem gengið er inn í. Apótek Suðurnesja flytur starfsemi sína í þetta nýja og glæsilega húsnæði undir lok árs.
Apótek Suðurnesja var stofnað 1996 en hefur verið rekið sem hluti af Lyfjavali til fjölda ára. Við þessi tímamót mun apótekið verða rekið undir nafni Lyfjavals. Lyfsalinn á og rekur þrjú apótek undir merkjum Lyfsalans og þrjú undir merki Lyfjavals.
„Þetta eru mjög svo ánægjulegir tímar fyrir okkur starfsfólkið þar sem bílaapótekið verður án efa til þess að auka þjónustu okkar við íbúa á Reykjanesinu öllu. Okkur þykir staðsetningin einstaklega spennandi þar sem þetta svæði er svo miðsvæðis fyrir svo marga, ferðamenn og heimamenn í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, “ segir Tanja Veselinovic, lyfsöluleyfishafi í Apóteki Suðurnesja. Hún hefur unnið sem lyfsali í Apóteki Suðurnesja í um tíu ár og segir að vissulega verði eftirsjá að fyrri staðsetningu og gamla húsinu en þessi breyting sé til hagsbóta fyrir alla. Stefnt er að því að Lyfjaval muni bjóða upp á lengri opnunartíma en hingað til á svæðinu. Gert er ráð fyrir opnun apóteksins undir lok árs.
Ingvar Eyfjörð er framkvæmdastjóri Aðaltorgs. Hann segist hæst ánægður með að fá Lyfjaval inn á torgið sem byggist nú hratt upp.
„Við erum ánægðir með að fá bílaapótek inn á torgið. Lyfjaval hefur mikla reynslu af því að reka bílaapótek og þessi þjónusta mun smellpassa inn í það þjónustuframboð sem þarna er að byggjast upp og tilkynnt verður um á næstu vikum,“ segir Ingvar. Hann segir að eins og áður komi allir verktakar framkvæmdarinnar af Suðurnesjum. HUG Verktakar ehf. sjá um byggingu apóteksins ásamt Lagnaþjónustu Suðurnesja ehf., Nesraf ehf. og Ellerti Skúlasyni ehf. en hönnunin var í höndum Arkís Arkitektar og Verkís.
Svavar Valgeirsson frá Lyfjavali tók fyrstu skóflustunguna á stórri jarðvinnuvél frá Ellerti Skúlasyni. Fulltrúar allra sem koma að framkvæmdinni standa við vélina. VF-mynd/pket.