Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Löður opnar þvottagöng á Fitjum
Guðlaugur Sigurjónsson, sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ, Elísabet Jónsdóttir frá Löður og Halldóra Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Föstudagur 26. ágúst 2022 kl. 15:41

Löður opnar þvottagöng á Fitjum

Fyrsta skóflustunga að nýrri þvottastöð Löðurs var tekin á Fitjum í vikunni. Þar mun Löður opna 27 metra löng þvottagöng. Afkastageta þeirra er um 60 bílar á klukkustund og verða allir regnbogans litir á leiðinni í gegnum stöðina svo um leið og við bíllinn er þrifinn fær viðskiptavinurinn skemmtilega upplifun. Bílar eru dregnir sjálfvirkt áfram í gegnum stöðina en starfsmenn verða á staðnum bæði til að forþvo bílana og leiðbeina viðskiptavinum.

„Það er mikið tilhlökkunarefni að opna nýja stöð í Reykjanesbæ og þjónusta íbúa og aðra sem fara um svæðið eins vel og kostur er. Það  er umhverfisvænna að þvo bílinn í bílaþvottastöð þar sem eru olíu- og sandskiljur sem taka við spilliefnum. Þetta er mikilvægur þáttur þegar verið er að nota ýmis efni til að þvo bílinn svo þau fari ekki beint í grunnvatnið okkar,” segir Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löðurs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er fagnaðarefni að fá öflugt fyrirtæki eins og Löður til Reykjanesbæjar. Langstærstur hluti ferðamanna sem koma til Íslands ár hvert eiga hér upphafs og endapunkt og því mikilvægt að hafa öfluga þvottastöð til að þrífa bílaflotann eftir ferð um landið. Þá verður þetta frábær þjónusta fyrir bæjarbúa á öflugu verslunar- og þjónustusvæði á Fitjum,” segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, Sviðsstjóri Umhverfissvið í Reykjanesbæjar. 

Áætlað er að þvottastöðin opni í vetur en framkvæmdir eru þegar hafnar af fullum krafti. Löður kappkostar við að minnka kolefnisspor félagsins og er til dæmis allt plast sem fellur til við reksturinn endurunnið í samvinnu við Pure North.

Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löðurs tók fyrstu skóflustunguna undir handleiðslu Viðars Ellertssonar hjá Ellerti Skúlasyni ehf.